is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21538

Titill: 
 • Liðsýkingar á Íslandi. Faraldsfræði liðsýkinga á Íslandi á árunum 2003-2014
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur og markmið: Bráðar liðsýkingar af völdum baktería eru sjaldgæfar en alvarlegar sýkingar. Þrátt fyrir framfarir í greiningu og meðferð liðsýkinga virðist nýgengi þeirra vera að aukast. Líklegar ástæður fyrir þessu aukna nýgengi er hækkandi meðalaldur, mikil aukning í notkun nýrra ónæmisbælandi lyfja og aukning á ýmiss konar íhlutun í liði. Niðurstöður fyrri rannsóknar á liðsýkingum hérlendis 1990-2002 sýndu nýgengisaukningu fyrst og fremst vegna fjölgunar slíkra inngripa í greiningar- og meðferðarskyni. Markmið þessarar rannsóknar var því að varpa ljósi á faraldsfræði liðsýkinga á Íslandi á árunum 2003-2014 með tilliti til aldurs og kyns sjúklinga, klínískrar birtingarmyndar, áhættuþátta, sýklafræðilegra orsaka, meðferðar og afdrifa sjúklinga, auk þess að rannsaka nýgengi liðsýkinga og meta þann fjölda sýkinga sem verður í kjölfar hvers kyns íhlutun í liði.
  Efniviður og aðferðir: Framkvæmd var aftursýn, lýsandi rannsókn á liðsýkingum á Íslandi 2003-2014. Listi yfir jákvæðar liðvökvaræktanir á tímabilinu fékkst út tölvukerfi sýklafræðideildar Landspítala. Sjúklingarnir sem þannig fundust þurftu einnig að hafa fengið fulla meðferð við liðsýkingu; annars var talið að um mengun eða annars konar sýkingu væri að ræða. Farið var yfir sjúkraskrár þátttakenda og klínískar upplýsingar skráðar í FileMaker gagnagrunn. Við tölfræðilega úrvinnslu var notast við tölfræðiforritið R.
  Niðurstöður: Frá ársbyrjun 2003 til loka ársins 2014 greindust 289 tilfelli liðsýkinga sem staðfest voru með jákvæðri liðvökvaræktun. Sýkingar í eigin lið reyndust 209 talsins og sýkingar í gervilið voru 80 talsins. Nýgengi sýkinga í eigin lið jókst ekki á tímabilinu en meðalnýgengið var 5,6 tilfelli/100.000/ár. Aldursbundið nýgengi var marktækt hæst hjá einstaklingum eldri en 60 ára og á meðal barna yngri en tveggja ára, en lægst hjá aldurshópnum 6-9 ára. Marktækur munur var á kynjahlutföllunum á meðal fullorðinna (p<0,0001). Sýkingin var oftast bundin við einn lið og var hnéliðurinn oftast sýktur bæði í börnum og fullorðnum. S.aureus var algengasta bakterían í liðsýkingum barna og fullorðinna. Í fullorðnum voru streptókokkar svo næstalgengustu sýklarnir en í börnum reyndist K.kingae næstalgengust. Sýkingu mátti rekja til inngrips í lið í 6% tilfella barna (2/32) og 34,5% tilfella fullorðinna (61/177). Ekki var breyting á fjölda meðferðartengdra sýkinga á milli ára. Heildardánartíðnin á tímabilinu reyndist 5,3%. Þegar kom að sýkingum í gerviliðum reyndist meðalnýgengið vera 2,1 tilfelli/100.000/ár á tímabilinu og ræktuðust S.aureus og kóagulasa-neikvæðir staphylókokkar í meira en 60% tilfella. Sýkingu mátti rekja til liðskiptaaðgerðar í 41% tilfella.
  Ályktanir: Þessar niðurstöður sýna að nýgengi liðsýkinga virðist ekki vera á uppleið, en það hefur haldist stöðugt á tímabilinu eftir hækkun áratugarins á undan. Hlutfall sýkinga í kjölfar inngripa er hátt en ekki var aukning á fjölda meðferðartengdra sýkinga á milli ára. Liðsýkingar eru enn, þrátt fyrir virk sýklalyf, orsök varanlegra liðskemmda og hreyfihamlana og því mikilvægt að læknar kunni vel til verka við hvers kyns íhlutun í liði og að brugðist sé hratt og rétt við þegar grunur leikur á að um liðsýkingu sé að ræða.

Samþykkt: 
 • 16.5.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/21538


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Signy Lea Gunnlaugsdottir-B.S ritgerð.pdf1.71 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna