Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21541
Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tengsl líkamsræktar við áráttu- og þráhyggjuröskun, átraskanir og líkamsræktarfíkn. Spurningalistarnir OCI-R, sem skimar fyrir einkennum áráttu- og þráhyggjuröskunar, EAT-26, sem skimar fyrir einkennum átraskana, og EDS-21, sem skimar fyrir einkennum líkamsræktarfíknar, voru settir upp á þar til gerðri heimasíðu ásamt stökum spurningum um kyn, aldur og líkamsræktarvenjur. Tengill á spurningalistana var sendur íslenskum grunnnemum við Háskóla Íslands og iðkendum tiltekinna líkamsræktarstöðva á höfuðborgarsvæðinu. Þátttakendur voru valdir eftir hentugleika og voru 683 talsins eftir hreinsun gagna, þar af 213 karlar, 464 konur og sex sem ekki létu kyns síns getið. Áreiðanleiki og þáttabygging listanna þriggja voru könnuð. Tvær tilgátur voru settar fram. Sú fyrri var að tengsl væru á milli líkamsræktar og áráttu- og þráhyggjuröskunar, átraskana og líkamsræktarfíknar þannig að því meiri tíma sem fólk eyddi í líkamsrækt, því hærra myndi það skora á fyrrnefndum listum. Sú tilgáta stóðst fyrir listana sem mæla einkenni átraskana og líkamsræktarfíknar en ekki listann sem mælir einkenni áráttu- og þráhyggjuröskunar. Seinni tilgátan var sú að þeir sem ná skimunarviðmiði átraskanalistans eyði meiri tíma í líkamsrækt og skori hærra á listanum sem mælir líkamsræktarfíkn. Niðurstöður bentu til þess að það að ná skimunarviðmiði átröskunar tengdist hærra skori á líkamsræktarfíknarlistanum en ekki aukinni líkamsrækt. Einnig var kannað hvort þátttakendur myndu skora mishátt á líkamsræktarfíknarskalanum eftir því hvort þeir væru að stunda líkamsrækt bæði með íþróttafélagi og á eigin vegum eða einungis á eigin vegum. Munur reyndist vera á því í hvaða flokki þátttakendur lentu eftir því á hverra vegum þeir stunduðu líkamsrækt. Tilgátur rannsóknarinnar stóðust því að hluta til.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Tengsl líkamsræktar við áráttu- og þráhyggjuröskun, átraskanir og líkamsræktarfíkn - Skemman.pdf | 1,71 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |