is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21545

Titill: 
 • Lokastigsnýrnabilun: Ættlægni og erfðir
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Langvinnur nýrnasjúkdómur hrjáir um 10% einstaklinga í vestrænum löndum og getur leitt til lokastigsnýrnabilunar (LSNB) auk þess sem hætta á hjarta- og æðasjúkdómum er stóraukin. Auk áhættuþátta, s.s. háþrýstings, sykursýki og offitu, benda rannsóknir til fjölskyldutengsla meðal sjúklinga með LSNB sem eingöngu að hluta til sé að rekja til þekktra arfgengra eingenanýrnasjúkdóma. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna ættlægni LSNB á Íslandi og að skilgreina hlutdeild eingenasjúkdóma meðal orsaka LSNB hér á landi með því að leita að stökkbreytingum í þekktum sjúkdómsvaldandi genum og athuga tengsl þeirra við LSNB.
  Efniviður og aðferðir: Við mat á ættlægni LSNB var notast við íslensku nýrnabilunarskrána sem innifelur alla einstaklinga sem fengu meðferð með skilun eða ígræðslu nýra á árunum 1968-2014. Til samanburðar voru 10.000 viðmiðahópar valdir af handahófi úr ættfræðigagnagrunni Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE). Reiknaður var skyldleikastuðull meðal sjúklinganna og hlutfallsleg áhætta á LSNB hjá skyldmennum þeirra, með og án einstaklinga með þekkta eingenasjúkdóma. Við leit að stökkbreytingum í þekktum sjúkdómsvaldandi genum var notast við arfgerðagagnagrunn ÍE. Teknir voru saman allir breytileikar í viðkomandi genum og þeir síðan bornir saman við gagnagrunna yfir meinvaldandi breytileika sem hafa fundist erlendis í fjölskyldum með eingenanýrnasjúkdóma. Aðferðir þróaðar af ÍE voru svo notaðar til að leita að arfberum og fjölskyldum með eingenanýrnasjúkdóma og til að kanna tengsl breytileikanna við LSNB.
  Niðurstöður: Hlutfallsleg áhætta LSNB meðal 1.-3. gráðu ættmenna sjúklinga með LSNB var marktækt hærri en í almennu þýði. 1° ættingjar höfðu hlutfallslega áhættu 11,95 [95% öryggismörk 9,13;15,86], 2° ættingjar 4,19 [2,91;5,89] og 3° ættingjar 1,48 [1.00;1,96]. Sjúklingarnir voru marktækt skyldari innbyrðis í 5 meiósufjarlægðir og engir makar tilfella höfðu LSNB. Eftir að hafa útilokað þekkta arfgenga nýrnasjúkdóma var marktækt aukin hætta fyrir 1° ættingja 6,11 [3,92;12,05] og hærri skyldleikastuðull marktækur í 4 meiósufjarlægðir. Eftir frekari útilokun sjúklinga með ýmsa meðfædda sjúkdóma eða sjúkdóma með vel skilgreinda meinmyndun, s.s. gauklabólgu, var hlutfallsleg áhætta 8,37 [5,05;15,15] fyrir 1° ættingja og skyldleikastuðull marktækt hærri í 3 meiósufjarlægðir. Skoðuð voru 8 gen tengd arfgengum orsökum nýrnabilunar, þ.e. arfgengum blöðrunýrnasjúkdómi með ríkjandi erfðir (PKD1, PKD2), UMOD-nýrnasjúkdómi (UMOD), Alport-heilkenni (COL4A3, COL4A4 og COL4A5) og Dent-sjúkdómi (CLCN5 og OCRL). Alls fundust 954 breytileikar, þar af 7 meinvaldandi. Ein stökkbreyting, p.Trp230Arg í UMOD, hafði sterka sýnd LSNB hér á landi og fannst m.a. í einstaklingum sem taldir voru hafa aðra orsök LSNB.
  Ályktanir: LSNB er fjölskyldulæg á Íslandi og er það að verulegu leyti vegna arfgengra nýrnasjúkdóma. Ættlægnin er þó enn marktæk eftir að þekktir eingenanýrnasjúkdómar hafa verið útilokaðir. Meinvaldandi breytileiki í UMOD-geninu virðist vera útbreiddari en áður var talið og gæti verið vísbending um að eingenanýrnasjúkdómar skýri í raun ættlægni nýrnabilunar að meiri hluta en talið hefur verið. Rannsóknina þyrfti að endurtaka hjá stærri hóp, t.d. með því að bæta við langvinnum nýrnasjúkdómi á stigi 4-5 auk þess sem þarf að kanna fleiri gen sem tengjast LSNB.

Samþykkt: 
 • 18.5.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/21545


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_Hjalmar_Gunnlaugur_Ingolfsson.pdf1.16 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna