Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21546
Inngangur: Streptókokkar af flokki B (group B streptococcus; GBS) var fyrst lýst sem sýkingarvaldi í mönnum árið 1938. Sýkingar voru frekar fátíðar fram að 1970, en varð þá einn helsti sýkingarvaldur í nýburasýkingum. Síðustu áratugi hafa ífarandi GBS sýkingar í fullorðnum aukist, þá sérstaklega í öldruðum og fólki með undirliggjandi sjúkdóma. GBS hefur um sig fjölsykruhjúp og á grundvelli samsetningar hans er bakterían flokkuð í 10 mismunandi hjúpgerðir (serotypes) sem eru Ia, Ib og II – IX. Til viðbótar hefur hver stofn eina tegund af yfirborðsprótínum (surface proteins) og eina eða tvær gerðir af festiþráðum (pili). Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka hugsanleg tengsl milli birtingarmyndar sýkingar eða undirliggjandi sjúkdóma við fyrrnefnda byggingarþætti bakteríunnar.
Efni og aðferðir: Fyrir lá listi allra ífarandi GBS sýkinga í fullorðnum (>16 ára) á Íslandi á árunum 1975-2012, alls 154 sýkingar. Einnig lágu fyrir upplýsingar um hjúpgerð, yfirborðsprótín og festiþræði allra tiltækra stofna (n=133). Úr sjúkraskrám var safnað upplýsingum um einkenni, birtingarmyndir, heilsufar og undirliggjandi sjúkdóma. Upplýsingar um greiningu fannst hjá 117 sjúklingum og um undirliggjandi sjúkdóma hjá 116.
Niðurstöður: Konur voru 79, þar af 6 þungaðar, en karlar voru 54. Meðalaldur fullorðinna annarra en þungaðra kvenna var 65 ár og dánarhlutfall innan 30 daga var 14.3%. Alls sýktust 6 sjúklingar oftar en einu sinni. Nýgengi var 0.17/100.000/ár tímabilið 1975-1985, en 3.54/100.000/ár tímabilið 2004-2012 og var aukningin mest meðal 70 ára og eldri. Sýkillinn var ræktaður úr blóði (87%), liðvökva (12%) og heila- og mænuvökva (1%). Algengustu hjúpgerðirnar voru hjúpgerð Ia (23.3%), V (18.8%) og III (15.8%). Algengustu birtingarmyndirnar voru húð- og mjúkvefjasýkingar (33.3%), blóðsýkingar án þekkts uppruna (18.0%) og bein- og liðsýkingar (15.3%). Af alvarlegum undirliggjandi sjúkdómum komu illkynja sjúkdómar (34.5%), hjartasjúkdómar (25.5%) og lungnasjúkdómar (20.9%) oftast fyrir.
Ályktun: Mikil aukning hefur orðið á GBS sýkingum á Íslandi síðustu áratugi. Ástæður aukningarinnar eru ekki að fullu ljósar. Áhættuhópar þessarar sýkingar eru aldraðir og sjúklingar með undirliggjandi sjúkdóma, en tekist hefur að halda nýgengi hjá nýburum lágu, meðal annars vegna fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf ef móðir fær hita í lok meðgöngu eða fæðingu. Þróun bóluefnis gegn annars vegar hjúpgerðum og hins vegar festiþráðum er hafin, en ljóst er að frekari rannsókna er þörf til að sporna gegn þessari neikvæðu þróun sýkingarinnar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Tómas Magnason.pdf | 683.52 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |