Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21654
Inngangur:
Algengi meðgöngusykursýki (MGS) í heiminum í dag er á bilinu 1-14%. Á Landspítalanum var algengið 4,4% árin 2007-8. Í febrúar 2012 tóku gildi nýjar klínískar leiðbeiningar hérlendis um greiningu og skimun fyrir MGS, með lægri blóðsykurgildum en áður var miðað við. Því var búist við að algengi MGS myndi aukast í allt að 16%. MGS fylgir aukin tíðni fylgikvilla, bæði fyrir móður og barn, en jafnframt hefur verið sýnt fram á að meðferð við MGS bætir afdrif móður og barns. Rannsóknin skoðar algengi MGS á Landspítalanum frá 1.mars 2012 – 1.mars 2014 og afdrif kvenna og barna þeirra.
Efniviður og aðferðir:
Rannsóknin náði til allra kvenna með MGS sem fæddu einbura á LSH á tímabilinu 1.mars 2012 – 1.mars 2014 (n=345). Fyrir hverja konu með MGS voru valin tvö viðmið, konur án MGS en að öðru leyti með sömu bakgrunnsbreytur (n=612). Skráður var aldur móður, kynþáttur, hæð, þyngd og líkamsþyngdarstuðull, meðgöngulengd og fæðingarþyngd nýburans. Einnig voru skráðir fylgikvillar á meðgöngu, fæðingarmáti og fylgikvillar í fæðingu, sem og fylgikvillar nýburans. Fyrir konur með MGS voru að auki skráðar upplýsingar um sykurþolprófið og meðferð. Lýsandi tölfræði var notuð til að bera saman hópana.
Niðurstöður:
Meðgöngusykursýki greindist hjá 345 konum af 6631, þ.e 5,2% meðganga á LSH. Alls þurftu 117 konur (33,9%) insúlínmeðferð en hjá 228 konum (66,1%) dugði mataræðisbreyting og hreyfing til að halda blóðsykri innan eðlilegra marka. Konur með MGS voru með marktækt hærri líkamsþyngdarstuðul (LÞS) við fyrstu mæðraskoðun en konur án MGS (31,9 og 27,1; p=2*10-16). Þegar tilfellahópur var borinn saman við viðmiðunarhóp sást að framköllun fæðingar var algengari (51,6% og 22,7%; p=0.0001) en ekki var marktækur munur á tíðni fæðingarinngripa. Konur með MGS voru líklegri til að vera með langvinnan háþrýsting (7,8% og 2%; p=0,00001) og vanvirkan skjaldkirtil (5,5% og 2,1%, p=0,005). Konur með MGS voru ekki líklegri en viðmiðunarhópur til að fá meðgönguháþrýsting eða meðgöngueitrun. Nýburar kvenna með MGS voru líklegri til að vera þungburar (7,3% og 3,6%; p=0,012), þurfa skammtímaeftirlit á vökudeild (17,4% og 11,1%; p=0,0061), fá nýburagulu (6,7% og 3,3%; p=0,015) og blóðsykurfall (3,48% og 0,16%; p=0,00002). Fyrirburafæðing (< 37 vikur) var einnig algengari (7,5% og 2,9%; p=0,0011). Ekki var marktækur munur á tíðni axlarklemmu (p = 0,2) og viðbeinsbrota (p=0,85).
Ályktanir:
Algengi MGS hefur aukist úr 4,4% í 5,2%. Konur með MGS eru þyngri en konur í viðmiðunarhópi, þær eru líklegri til að vera með háþrýsting fyrir þungun og fæðing er oftar framkölluð. Ekki var marktækur munur á tíðni fæðingarinngripa (keisaraskurða eða fæðing með sogklukku/töng) á milli hópanna. Börn MGS kvenna eru líklegri til að vera þungburar, fá gulu og/eða blóðsykurfall en börn kvenna í viðmiðunarhópi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS-ritgerð-LOKA.pdf | 1.03 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |