Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21656
Langvinn veikindi og afleiðingar þeirra verða sífellt algengari og nútíma heilbrigðiskerfi stuðlar að því að fólk getur lifað áratugum saman með langvinna sjúkdóma og sumir þeirra með mörg og flókin vandamál. Einstaklingar með langvinna sjúkdóma þurfa á mismikilli meðferð og þjónustu að halda. Margir þeirra búa í heimahúsum og reiða sig á aðstoð og umönnun fjölskyldunnar sem er misvel í stakk búin að sinna þörfum þeirra.
Tilgangur þessarar fræðilegu samantektar var að skoða hverjar helstu þarfir aðstandenda langveikra einstaklinga væru. Einnig að varpa ljósi á hvert hlutverk hjúkrunarfræðinga er í umönnun fjölskyldunnar. Leitað var heimilda í rafrænum gagnagrunnum. Niðurstöðurnar voru þær að aðstandendur hafa mismunandi þarfir eftir því á hvaða stigi sjúkdómur sjúklingsins er, en helstu þarfir aðstandenda voru þær sem tengjast sjúklingnum og líðan hans, svo sem að fá heiðarleg og skýr svör um líðan og ástand sjúklingsins og að sjúklingur fái þá meðferð sem hann þarfnast. Jafnframt greindu aðstandendur sem eru í umönnunarhlutverki frá andlegum og trúarlegum þörfum sem styrkti þá í streituvaldandi aðstæðum. Ennfremur líkamlegum þörfum vegna álags, svo sem þörf á hvíld og svefni, ásamt tilfinningalegum þörfum sem tengdust slæmri eða hrakandi heilsu sjúklings.
Fram kom að aðstandendur fundu fyrir meira sjálfstrausti og öryggi í umönnunarhlutverki ef þeir fengu viðeigandi fræðslu og stuðning. Mikið álag getur verið á aðstandendum langveikra einstaklinga, bæði tilfinningalegt og líkamlegt.
Með þeim breytingum sem orðið hafa á íslenskri heilbrigðisþjónustu er sú krafa gerð að aðstandendur taki meiri þátt í umönnun langveikra fjölskyldumeðlima. Til þess að þeir geti sinnt því hlutverki þarf heilbrigðisstarfsfólk að meta þarfir þeirra og veita þeim markvissan stuðning og fræðslu ásamt því að vera vakandi fyrir líðan þeirra og heilsu.
Lykilorð: þarfir, fjölskyldan, aðstandandi, langvinnur sjúkdómur, fjölskylduhjúkrun
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Brynhildur Blomsterberg og Aleksandra Pantic.pdf | 356,67 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |