Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21661
Í þessari ritgerð er fjallað um hjátrú og innvígslusiði í íþróttum. Meginmarkmið ritgerðarinnar var að fá innsýn í þá hjátrú og innvígslusiði sem eru aðallega við gildi í íþróttaheiminum. Einnig var leitast eftir að skoða áhrif þessara fyrirbæra á íþróttamenn sem og viðhorf viðmælenda til þeirra. Mismunandi tegundir af hjátrú og innvígslusiðum voru dregin fram á sjónarsviðið, virkni þeirra og áhrifum á viðmælendur lýst en einnig var kannað hvort nokkur munur væri á fyrirbærunum milli tveggja íþróttagreina; handknattleiks og knattspyrnu. Það var fyrst og fremst stuðst við viðtöl sem var aflað með eigindlegum rannsóknaraðferðum þar sem tekin voru viðtöl við sex íþróttamenn sem stunda eða stunduðu annað hvort handknattleik eða knattspyrnu. Fyrri hluti ritgerðar fer yfir helstu hugtök og kenningar en meðal annarra var notast við kenningar um hjátrú, innvígslusiði, leiki, hópa, jaðartíma, hópkennd og loks um „við og hinir“. Auk þess var saga íþrótta rakin. Síðari hluti rannsóknar byggir á greiningu á viðtölum og frásögnum viðmælenda sem er svo sett í samhengi við fyrrnefndar kenningar.
Niðurstöður rannsóknar gefa til kynna að ekki sé hægt að tala um verulegan mun milli hjátrúa í þessum tveim íþróttagreinum; hjátrú virðist tengjast persónunni frekar en íþróttinni. Hjátrú er að finna í flestum íþróttum í einhverju formi og flestir viðmælendur mínir könnuðust við að gera einhvers konar rútínu, hvort sem þau telja það sem hjátrú eða ekki. Hins vegar mátti finna töluverðan mun milli innvígslusiða í íþróttum þar sem handknattleikur virðist hafa tileinkað sér líkamlegri innvígslusiði á meðan knattspyrnan hallast að andlega þættinum. Mismunandi skoðanir og viðhorf voru til innvígslusiða en þó kom það sterklega í ljós að viðmælendur voru sammála um að þátttaka í þeim væri nauðsynlegur hluti þess að tilheyra íþróttaliði. Með innvígsluathöfninni yrðu menn fyrst inngengnir liðsmenn, álitnir einn af hópnum og þar með „við“ en ekki „hinir“.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-Ritgerð - Lokadrög.pdf | 775,49 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |