is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21662

Titill: 
 • Barnaslys í Reykjavík 2010-14 alvarleiki og orsakir
Námsstig: 
 • Bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
 • Inngangur:
  Áverkar af slysavöldum eru algengasta dánarorsökin hjá börnum og ungu fólki í heiminum í dag. Barnaslys eru verulegt samfélagslegt vandamál sem hafa ekki bara áhrif á lífsgæði þeirra sem lenda í þeim heldur eru þau byrði á heilbrigðiskerfinu þar sem miklu er kostað í mannauð og fjármunum í að meðhöndla barnaslys. Margt hefur áhrif á það hverjir lenda í slysum og tegund slyssins: Kyn og aldur einstaklings sem og efnahagsleg staða forráðamanna. Ekki nægir að nota sömu forvarnir fyrir börn og fullorðna þar sem bæði þroski og þarfir barna eru annars eðlis en fullorðinna. Almennt eru vitsmunir, dómgreind og líkamleg geta barna minni en hjá fullorðnum.
  Efniviður og aðferðir:
  Rannsóknin er afturskyggn, ekki var aflað upplýsts samþykkis né haft samband við sjúklinga. Gögn voru fengin úr sjúkraskrám LSH um komur allra slasaðra reykvískra barna yngri en 18 ára á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi á tímabilinu 2010-14. Gögnin voru skoðuð með tilliti áverka þar sem ICD-10 kerfið er notað til að greina staðsetningu og eðli áverkans og AIS og ISS (Abbreviated Injury Scale - Injury Severity Score) kerfin notuð til að greina alverleika áverkans. Sérstök áhersla var lögð á innlagnir á tímabilinu í úrvinnslu gagna. NOMESCO kerfið er notað til að greina ytri orsakavald slyss og með þeim upplýsingum eru undirflokkar slysa: Bruna-, heima-, íþrótta-, skóla- og umferðarslys skoðaðir með tilliti til aldurs, kyns og hvort innlagnar var þörf. Tölur um fjölda barna í Reykjavík er fenginn frá Hagstofu Íslands.
  Niðurstöður:
  Heildarkomur reykvískra barna á bráðamóttöku Landspítalans á árunum 2010-14 voru 25.962 eða 5.192 að meðaltali á ári, karlkyns börn voru 55% og kvk. börn 45% af þessum komum. Að meðaltali voru 190 komur á hver 1000 reykvísk börn á ári á tímabilinu. 0,9% allra koma kröfðust innlagnir sem voru 251 á tímabilinu, af þeim voru 162 (65%) þeirra strákar og 89 (35%) þeirra stúlkur. 31 innlagðra höfðu lítin áverka skv. ISS skori, 131 höfðu meðal áverka, 45 höfðu mikin áverka, 4 höfðu alvarlegan áverka og 1 hafði lífshættulegan áverka. Hvað undirflokka slysa varðar voru 12.093 heimaslys og af þeim þörfnuðust 132 þeirra innlagnar, 6.224 skólaslys með 30 innlögnum, 3.968 íþróttaslys með 37 innlögnum, 270 brunaslys með 17 innlögnum, 848 umferðarslys með 26 innlögnum en 31% af öllum umferðarslysum voru 17 ára börn. Hjá aldurshópnum 0-4 ára reyndust höfuðáverkar 64% allra áverka, efri útlimir 22% og neðri útl. 12%. Hjá 5-9 ára eru efri útlimaáverkar 36% allra áverka, höfuðáverkar 34% og neðri útlimir 25%. Hjá 10-14 ára voru efri útlimaáverkar 45% allra áverka, neðri útlimir 37% og höfuð 11%. Hjá 15-17 ára voru neðri útlimaáverkar 37%, efri útlimir 36% og höfuð 12% allra áverka.
  Ályktanir:
  Meðalfjöldi innnlagna á tímabilinu 2010-2014 er uþb 50 á ári og þar sem skv fyrri rannsókn fyrir árin 2000-2009 þar sem meðaltalið var 119 innlagnir á ári virðist vera sem að innlögnum vegna slysa hafi fækkað umtalsvert. Einnig hefur heildarkomum á bráðamóttöku fækkað úr 211 á hver 1000 börn að meðaltali á ári á árunum 2000-2009 niður í 190 komur á árunum 2010-14.

Samþykkt: 
 • 27.5.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/21662


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Barnaslys 2010-14 alvarleiki og orsakir.pdf696.54 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna