is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár) Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2174

Titill: 
 • Að brynna fola í vínkeldu. Um erótík í fornaldar- og riddarasögum
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Á okkar póstmódernísku tímum hættir mörgum til að steypa saman ýmsum hugtökum og gera þar með merkingu þeirra óljósa, jafnvel tilgangslausa. Fyrrum voru til að mynda nokkuð glögg skil milli listar og afþreyingar, fegurðar og lágkúru. Nú til dags virðast þessi skil næsta ógreinileg. Kannski var líka um að sakast ákveðna fordóma í garð afþreyingarefnis hvers konar. Viðhorf okkar til skemmtiefnis einkennist af meira umburðarlyndi er áður. En skemmtiefni á sér að sjálfsögðu margar hliðar. Afþreyingar-bókmenntir geta verið af ýmsum toga og varasamt að skipa þær í ákveðinn bás. Á hinn bóginn er líka hægt að ganga of langt í þessum efnum. Það hefði líklega þótt saga til næsta bæjar fyrir nokkrum árum, ef virðuleg stofnun eins og Háskóli Íslands hefði tekið til bókmenntalegrar umfjöllunar bækur eins og þær ástarsögur sem ungað er út fjórum sinnum í mánuði eins og hverri annarri færibandavinnu.
  Erótík og klám heyrir til afþreyingar í okkar iðnvædda þjóðfélagi og er óhjákvæmilegur fylgifiskur vestrænnar (ó)menningar. En oftar en ekki ruglar fólk saman hugtökunum erótík og klám. Sumar verzlanir í Reykjavík gefa sig út fyrir að vera erótískar búðir, þó þær hafi, fyrir utan hjálpartæki af ýmsum toga, lítið annað en klámvarning á boðstólum. En klám og erótík er sitthvað. Orðabók Menningarsjóðs skilgreinir klám meðal annars sem „...mynd eða annað sem beinir athyglinni að kynlífi eða kynfærum án nauðsynjar í listrænu samhengi...“ (Íslensk orðabók 1983:501). Klám er andstæða erótíkur að því leyti að þar er athöfnin sýnd eða henni lýst án þess að nokkuð sé undan dregið. Í þeim efnum reynir heldur ekkert á ímyndunarafl áhorf-andans/lesandans.
  Samkvæmt Orðabók Háskólans kemur orðið erótík fyrst fyrir í íslenzkri bókmenntasögu í ferðaþáttum Thors Vilhjámsson, Undir gervitungli, sem kom út 1959 eða fyrir réttri hálfri öld. Í útgáfu Orðabókarinnar frá 1983 kemur erótík fyrir í viðauka hennar þar sem það er sagt merkja „ástafýsn, ástleitni, ástahneigð“ (Íslensk orðabók 1983:1247). Þar er meira að segja spurningamerki fyrir framan sem þýðir að þetta er vont mál, orð sem ber að forðast í íslenzku. Því miður – það hefur ekkert fundizt skárra orð í staðinn, enda orðið illþýðanlegt á íslenzku. Orð eins og ástafýsn, ástleitni og ástahneigð hafa alltof þrönga merkingu þegar kemur að bókmenntalegri túlkun. Í nýjustu útgáfu Orðabókarinnar er reyndar búið að gera hér bragarbót á. Spurningamerkið er horfið og í staðinn komin þessi skilgreining: „kynferðislegt aðdráttarafl, umfjöllun um kynlífsnautn, lýsing á kynferðislegu aðdráttarafli“ (Íslensk orðabók 2002:286). Gallinn við þessa greiningu er hinsvegar sá, að hún getur allt eins átt við klám. Til að skilgreina hugtakið erótík fer líklega bezt á því að nýta skilgreininguna á klámi og umsnúa henni þannig, að neikvæð merking hennar fái jákvætt gildi. Erótík má því skilgreina á þessa lund: Lýsing eða myndræn túlkun sem beinir athyglinni að kynlífi og kynfærum í nauðsynlegu listrænu samhengi.
  Með þessa skilgreiningu í huga skulum við skoða þau atriði í fornaldar- og riddarasögum okkar þar sem þetta á við. Áður en að því kemur er rétt að víkja fáeinum orðum að afstöðu kirkjunnar til kynlífsins og hjónabandsins.

Samþykkt: 
 • 7.4.2009
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/2174


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
k_fixed.pdf399.6 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna