Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21844
Í þessari rannsókn var markmiðið að rannsaka athyglisskekkju og hugsanastjórn í tengslum við einkenni áráttu- og þráhyggjuröskunar. Niðurstöður fyrri rannsókna á athyglisskekkju hafa verið misvísandi þótt rannsóknir á hugsanastjórn bendi til að skert stjórn tilfinningahlaðinna hugsana einkenni fólk með röskunina. Þátttakendur voru alls 18 nemendur í Háskóla Íslands, 13 sem höfðu lágt skor og 5 sem höfðu hátt skor á spurningalista um ótta við smit og mengun. Svarnákvæmni þessara tveggja hópa var borin saman í athyglisblikk-verkefni sem innihélt myndir sem voru hlutlausar, óttavekjandi, tengdust smiti/mengun eða viðbjóði. Hugsanastjórn var könnuð með því að bera saman frammistöðu þeirra á hugsanafrávísunarverkefni þar sem unnið var með hlutlausar, slysatengdar og viðbjóðstengdar hugsanir. Búist var við því að þeir sem væru háir á ótta við smit og mengun hefðu meiri athyglisskekkju gagnvart viðbjóðstengdum og mengandi myndum heldur en þeir sem voru lágir á ótta við smit og mengun. Þar að auki var búist við því að þeir sem væru háir á ótta við smit og mengun ættu erfiðara með að skipta um viðbjóðstengda hugsun heldur en slysatengda og hlutlausa hugsun.. Niðurstöður sýndu að hvorki var marktækur munur á frammistöðu hópanna í athyglisbeitingu eða hugsanastjórn. Úrtaksmeðaltöl í athyglisblikk-verkefninu sýndu þó að svarnákvæmni var almennt lægri hjá þeim sem höfðu há skor á ótta við smit og mengun og að í þeim hópi var hún lægst í kjölfar viðbjóðstengdra mynda. Þessa vísbendingu um athyglisskekkju tengdri viðbjóðstengdum myndum hjá þeim sem óttast smit og mengun þyrfti að kanna betur í stærra úrtaki til að fá úr því skorið hvort athyglisskekkja tengist viðbjóði frekar en almennum ótta hjá þeim sem óttast smit og mengun.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Athyglisskekkja_og_hugsanastjórn_í_áráttu-_og_þráhyggjuröskun_Lokaeintak_.pdf | 1.4 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |