Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2185
Í heilbrigðiskerfinu er nauðsynlegt að geta metið gæði þjónustunnar og gert samanburð. Bæði er nauðsynlegt að geta borið saman mismunandi stofnanir og líka sömu stofnun milli ára. Gæðavísar (e. quality indicators) eru notaðir í þessum tilgangi, en þeir eru mælanlegir þættir starfseminnar notaðir til að meta gæði þjónustunnar. Markmið þessa verkefnis er að varpa ljósi á þekkta gæðavísa tengda meðferð hjartasjúkdóma sem hægt væri að nota á Landspítala (LSH), einkum þá sem tengjast blóðþurrðarhjartasjúkdómum. Þetta er gert í þeim tilgangi að fá skilvirkari samanburð við aðrar sambærilegar stofnanir og leggja mat á hvar Landspítali stendur með tilliti til gæða við meðhöndlun hjartasjúkdóma. Jafnframt að koma með tillögur að úrbótum á gagnasöfnun og uppbyggingu gagna í rafrænni sjúkraskrá á Landspítala svo hægt sé að meta sem flestar víddir gæða tengdum meðferð hjartasjúkdóma.
Til þess að ná þessum markmiðum var verkefninu skipt í þrjá hluta. Í fyrsta lagi var kannað hvaða gæðavísa tengda meðferð hjartsjúkdóma verið er að nota erlendis og í kjölfarið valdir ákveðnir gæðavísar til þess að nota í þessu verkefni. Í öðru lagi var kortlagt hvaða gögnum tengdum hjartasjúkdómum safnað er á tölvutæku formi á Landspítala og út frá því ákvarðað hvaða gæðavísa væri fýsilegt að nota á Landspítala. Í kjölfarið voru gerðar tillögur að úrbótum í gagnaskráningu, svo mögulegt sé að fjölga gæðavísum tengdum meðferð hjartasjúkdóma á Landspítala. Í þriðja lagi voru reiknuð gildi fyrir gæðavísa hjartasjúkdóma á Landspítala þar sem tölvutæk gögn leyfðu og gildin borin saman við sambærileg erlend gildi. Þetta var gert til þess að kanna stöðu Landspítala í samanburði við erlend sjúkrahús.
Margir gæðavísar tengdir meðferð hjartasjúkdóma hafa verið skilgreindir en niðurstöður þessa verkefnis benda til þess að innan við tuttugu þeirra henti til samanburðar á milli heilbrigðisstofnana, eins og staðan er í dag. Af þeim gæðavísum sem notaðir voru í verkefninu voru til aðgengileg gögn á Landspítala fyrir níu þeirra. Þetta stendur hins vegar til bóta, meðal annars með tilkomu nýs vöruhúss gagna og skráningu gagna frá Landspítala í sænska gagnagrunna um hjartasjúkdóma. Þar sem upplýsingar lágu fyrir um niðurstöður gæðavísa tengda meðferð hjartasjúkdóma fyrir árin 2003-2007 virðist Landspítalinn vera að standa sig svipað og Danmörk, Svíþjóð og Bandaríkin við meðhöndlun blóðþurrðarhjartasjúkdóma.
Allur samanburður á gæðavísum milli stofnana er torveldur. Helstu ástæður þess eru að ekki er verið að nota sömu gæðavísa á mismunandi stofnunum, þeir eru yfirleitt ekki skilgreindir nákvæmlega eins og jafnframt eru sjúklingahóparnir oft mismunandi samsettir. Hafa ber í huga að niðurstöður gæðavísa eru einungis vísbendingar um gæði og má ekki taka þær of bókstaflega.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Mastersritgerd42_prentun_fixed.pdf | 650.83 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_BirnaBjörg.pdf | 426.38 kB | Lokaður | Yfirlýsing |