is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21879

Titill: 
  • Alvarleg gula hjá nýburum. Nýgengi, áhættuþættir og húðmælingar gallrauða
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Nýburagula orsakast af auknu magni gallrauða í blóði nýbura fyrstu dagana eftir fæðingu. Gula kemur fram hjá allt að 60% nýbura. Yfirleitt þarf ekki að meðhöndla hana, en ef styrkur gallrauða í blóði fer umfram bindigetu albúmíns getur hann komist yfir blóð-heila þröskuldinn og valdið kjarnagulu. Kjarnagula er alvarlegur taugaskaði sem getur orðið langvarandi. Mæla má styrk gallrauða í blóði með tvennum hætti; blóðmælingu og húðmælingu. Blossamælir sem notaður er við húðmælingu er hentugur þar sem ekki þarf að stinga barnið og niðurstaða kemur samstundis. Leitast var við að svara eftirfarandi rannsóknarspurningum: Hvert er nýgengi alvarlegrar nýburagulu á tímabilinu? Hverjir eru helstu áhættuþættir alvarlegrar gulu hjá nýburum (Gallrauði ≥350 µmól/L)? Hversu áreiðanlegar eru húðmælingar við mat á þéttni gallrauða í blóði nýbura?
    Efni og aðferðir: Gerð var afturskyggn tilfella- og viðmiðarannsókn á nýburum á Landspítalanum sem á árunum 2008-2014 mældust með gallrauða ≥350 µmól/L í blóði. Þá var gerð samanburðarrannsókn á húðmælingum og blóðmælingum gallrauða. Klínískra upplýsinga var leitað í sjúkraskrám barna og mæðraskrám. Í fyrri hluta rannsóknarinnar var almennum upplýsingum um gang meðgöngu, ástand barns við fæðingu og greiningu og meðferð gulu skoðuð. Alls voru 127 tilfelli og 127 viðmið sem voru pöruð á fæðingardegi. Í seinni hluta rannsóknarinnar var almennum upplýsingum um gang meðgöngu, ástand barns við fæðingu og upplýsingum um mælingu gallrauða safnað. Alls voru 122 börn í þeim hluta.
    Niðurstöður: Nýgengi alvarlegrar nýburagulu var að meðaltali 0.58% á ári yfir tímabilið. Börn með alvarlega gulu voru fædd eftir styttri meðgöngulengd heldur en viðmiðin (GH=0.014, ÖB=0.003-0.058). Reykingar mæðra á meðgöngu minnkuðu líkurnar á alvarlegri gulu (GH=0.30, ÖB=0.09-0.70). Börn með mar við fæðingu fengu frekar alvarlega gulu (GH=3.86, ÖB=1.43-11.67). Að missa meiri prósentu af fæðingarþyngd var áhættuþáttur fyrir alvarlegri gulu (GH=20.45, ÖB=1.89-258.78). Þau börn sem fóru af spítalanum innan 36 klukkustunda frá fæðingu voru í aukinni hættu á að fá alvarlega gulu (GH=4.54, ÖB=1.76-12.73). Fylgni milli blossamæligildis og blóðmæligildis var R2=0.7075. Fylgnin fer minnkandi þegar styrkur gallrauðans fer yfir 250 µmól/L.
    Ályktanir: Börn sem fæðast eftir styttri meðgöngulengd, fá mar við fæðingu, fara snemma heim af spítalanum og missa stærra hlutfall af fæðingarþyngd sinni á fyrstu fimm dögum eftir fæðingu eru í áhættuhópi fyrir alvarlegri nýburagulu. Blossamælirinn hefur góða fylgni við blóðmælingu gallrauða upp að 250 µmól/L en eftir það er rétt að taka blóðprufu til staðfestingar. Það mætti fækka börnum sem fá alvarlega gulu með því að hvetja ljósmæður til að fara með blossamæli í heimaþjónustu og vera betur á varðbergi fyrir þekktum áhættuþáttum og klínískum einkennum gulu.

Samþykkt: 
  • 3.6.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/21879


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerð 15.maí 2015.pdf1.85 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna