is Íslenska en English

Lokaverkefni

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Kandídatsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21883

Titill: 
  • Upplýst samþykki fyrir notkun utanbastsdeyfingar í fæðingu. Fræðileg samantekt
Útdráttur: 
  • Utanbastsdeyfing hefur verið notuð til verkjastillingar í fæðingu frá árinu 1946 og hefur notkun hennar aukist æ síðan. Utanbastsdeyfing dregur vel úr verkjum en hún hefur aukaverkanir sem geta haft áhrif á líðan konu, framgang fæðingar og fæðingarmáta. Hér á landi er ekki óskað eftir upplýstu samþykki áður en deyfing er lögð en það tíðkast víða erlendis. Áður en upplýst samþykki er gefið er veitt fræðsla um uppsetningu deyfingarinnar, áhrif hennar og aukaverkanir. Með því að kalla eftir upplýstu samþykki er verið að stuðla að því að konur hafi næga þekkingu til að taka ákvarðanir um meðferð sína og ýta undir tilfinningu þeirra um að hafa stjórn á aðstæðum. Það er einn liður í því að stuðla að jákvæðri fæðingarupplifun.
    Tilgangur verkefnisins var að draga saman þá þekkingu sem til er um utanbastsdeyfingu í fæðingu og upplýst samþykki fyrir slíkri deyfingu. Gerð var fræðileg samantekt með það að markmiði að skoða hver áhrif og aukaverkanir utanbastsdeyfingar eru, hvort konur eigi að gefa upplýst samþykki fyrir utanbastsdeyfingu og hverjar fræðsluþarfir kvenna eru um utanbastsdeyfingu í fæðingu. Notuð voru gagnasöfnin PubMed, Cinahl, Scopus og Google Scholar og leitað var eftir rannsóknum frá árunum 2003-2015.
    Helstu niðurstöður voru að utanbastsdeyfing virkar vel til verkjastillingar í fæðingu en henni fylgja læknisfræðileg inngrip, aukaverkanir, auknar líkur á langdregnu öðru stigi fæðingar og áhaldafæðingu. Konur hafa getu til að gefa upplýst samþykki í fæðingu, en álag fæðingarinnar getur haft áhrif á hæfni þeirra til að meðtaka upplýsingarnar sem þeim eru veittar. Þekkingu kvenna á verkjameðferðum í fæðingu er ábótavant, þær vilja ítarlega fræðslu á meðgöngu og vilja gefa upplýst samþykki um notkun utanbastsdeyfingar fyrir fæðingu. Ljósmæður sjá um að veita upplýsingar á meðgöngu og fræðslan þarf að vera einstaklingshæfð og sniðin að þörfum kvenna.
    Áhugavert væri að gera rannsókn á viðhorfum íslenskra kvenna, ljósmæðra, fæðingar- og svæfingalækna til fræðslu og upplýsts samþykkis um notkun utanbastsdeyfingar í fæðingu og nýta niðurstöður til að skipuleggja fræðslu og útbúa fræðsluefni. Við gerð fræðsluefnis mætti líta til hjálpartækja sem notuð eru víða erlendis til að aðstoða konur við ákvarðanatöku.
    Lykilorð: utanbastsdeyfing, fæðing, aukaverkanir, ljósmóðurfræði og upplýst samþykki.

Samþykkt: 
  • 4.6.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/21883


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaverkefni.pdf457.76 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna