is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21891

Titill: 
  • Reglur samningaréttar um umboð er snerta annars vegar réttarsamband umbjóðanda og umboðsmanns og hins vegar réttarsamband umbjóðanda og þriðja manns, sem og tegundir umboða
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Áður fyrr var því haldið fram að einungis þeir aðilar sem stæðu að löggerningsgerð gætu gert með sér löggerning, en það heyrir nú sögunni til. Með aukinni þróun í viðskiptalífinu hefur þörfin fyrir milligöngu við löggerningsgerð aukist verulega og er nú viðurkennt að einstaklingar og lögaðilar geti verið milligöngumenn og þannig stofnað til réttinda og skuldbundið aðra aðila. Til eru nokkrar tegundir af milligöngu sem eru viðurkenndar og viðgangast í viðskiptalífi nútímans, en sem dæmi má nefna tilboðasafnara, miðlara, umsýslumenn, leppa og staðgöngu.
    Umfjöllunarefni þessarar ritgerðar er ein tegund staðgöngu er nefnist umboð. Í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga (hér eftir nefnd samningalög og skammstöfuð sml.) er að finna meginreglurnar um umboð og löggerninga umboðsmanns í II. kafla laganna. Samningalögin eru að mestu sniðin eftir norrænu samningalögunum en þau voru sett í kjölfar allvíðtækrar samvinnu meðal Norðurlandaþjóðanna um samræmingu löggjafar, m.a. á sviði einkaréttar sem framkvæmd var í upphafi 20. aldar. Ákvæðin í II. kafla laganna er fjalla um umboð eru óbreytt frá setningu samningalaganna en ákvæðin eru að flestu leyti í samræmi við það sem talið var áður gilda venju samkvæmt.
    Umboð er sú tegund milligöngu er reynir hvað mest á í hinu daglega lífi. Það sem einna helst einkennir umboð er að ætíð er um minnst þrjá aðila að ræða, þ.e. umbjóðanda, umboðsmann og þriðja mann, viðsemjanda umboðsmannsins. Þetta hefur leitt af sér fræðilega aðgreiningu á þremur réttarsamböndum; í fyrsta lagi er það hið ytra réttarsamband, sambandið á milli umbjóðanda og þriðja manns, í öðru lagi hið innra réttarsamband, sambandið á milli umbjóðanda og umboðsmanns, og í þriðja lagi réttarsambandið á milli umboðsmanns og þriðja manns. Ákvæði II. kafla samningalaganna fjalla eingöngu um hið ytra réttarsamband en þó mælir ákvæði 25. gr. sml. fyrir um réttarsambandið milli umboðsmanns og þriðja manns. Ekki er fjallað um réttarsambandið á milli umbjóðanda og umboðsmanns í II. kafla samningalaganna.
    Í upphafi var ætlun höfundar að taka fyrir framangreind þrjú réttarsambönd er einkenna umboð. Við vinnslu ritgerðarinnar og rannsókn heimilda kom þó í ljós að skortur er á almennri umfjöllun um grundvallaratriði er snerta umboð og umboðsmennsku í íslenskum rétti, þar sem lítið hefur verið skrifað um þessa tegund milligöngu meðal íslenskra fræðimanna. Úr því varð að höfundur ákvað að taka fyrir helstu atriði er snerta annars vegar réttarsamband umbjóðanda og umboðsmanns og hins vegar réttarsamband umbjóðanda og þriðja manns og fjalla um þau, ásamt því að fjalla um tegundir umboða. Markmið ritgerðarinnar er því að fjalla með almennum hætti um umboð og umboðsmennsku í merkingu samningalaganna, helstu tegundir umboða og löggerninga umboðsmanns sem gerðir eru á grundvelli umboðs. Í ritgerðinni er íslenskur réttur hafður í forgrunni en þar sem reglur samningaréttar um umboð og umboðsmennsku á hinum Norðurlöndunum eru í megindráttum eins er einnig litið til þess sem fram kemur í norrænum fræðikenningum og dómaframkvæmd.
    Efnisskipan ritgerðarinnar er með þeim hætti að í upphafi verður leitast við að gera grein fyrir sögulegri þróun kenninga um réttargrundvöll umboðs. Þar verða helstu kenningar erlendra fræðimanna raktar allt frá því hvernig litið var á umboðsmennsku í hinum forna Rómarrétti og fram til loka 19. aldar. Í 3. kafla verður gerð almenn grein fyrir umboði og umboðsmennsku, en þar verður m.a. leitast við að skilgreina hugtakið umboð ásamt því að gerð verður grein fyrir formi umboðssamninga og efni umboðs. Jafnframt verður fjallað um umboðsmanninn sjálfan. Í 4. kafla ritgerðarinnar verður sjónum beint að tegundum umboða og þeim réttarreglum sem gilda um hverja tegund. Verður þar gerð ítarleg grein fyrir þeim tegundum umboða sem leiða má af samningalögunum, en einnig verður leitast við að gera grein fyrir umboðstegundum sem í framkvæmd hefur þróast meðal dómstóla á hinum Norðurlöndunum. Þá verður að auki fjallað um þá sérstöku tegund umboðs er nefnist prókúruumboð. Í 5. kafla verður gerð grein fyrir því þegar umboðsmaður gerir löggerninga á grundvelli umboðs síns. Í því sambandi verður gerð grein fyrir hvert inntak hugtakanna umboð og heimild er ásamt því sem gerð verður grein fyrir ákvæði 1. mgr. 10. gr. sml. en þar er að finna meginregluna um skuldbindingargildi löggerninga umboðsmanns, sem hið ytra réttarsamband snýst um. Að auki verður fjallað um reglur samningaréttar er snúa að því þegar umboðsmaður fylgir ekki fyrirmælum umbjóðanda síns og fer út fyrir heimild sína er hann gerir löggerninga fyrir hönd þess síðarnefnda. Þá verður stuttlega vikið að því hvort umbjóðanda sé heimilt að gera löggerninga við þriðja mann eftir að hafa gefið umboðsmanni heimild til þess að koma fram fyrir sína hönd og hvort umboðsmanni sé heimilt að semja við sjálfan sig. Að lokum verður efni ritgerðarinnar dregið saman og gerð grein fyrir helstu niðurstöðum í 6. kafla.

Samþykkt: 
  • 5.6.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/21891


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
kápa.pdf162.7 kBLokaður til...01.06.2135KápaPDF
M-ritgerð.pdf1.04 MBLokaður til...01.06.2135MeginmálPDF