Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21908
Inngangur og markmið: Hraðar og miklar blóðsykurhækkanir eftir máltíð hafa verið tengdar aukinni hættu á skertu sykurþoli og sykursýki af gerð II. Margir þættir geta haft áhrif á blóðsykursvar en einn þeirra er vinnslustig matvæla. Þörf er á frekari þekkingu á áhrifum vinnslu matvæla á blóðsykur en fæða sem hefur mismunandi áhrif á blóðsykur virðist hafa ólík áhrif á seddu og vitræna getu eftir máltíð. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif matvælavinnslu á blóðsykur eftir máltíð á tvennan hátt. Annars vegar með því að mæla viðbrögð og reikna sykurstuðul (SS) fyrir hafra á mismunandi stigi vinnslu. Hins vegar með því að bera saman máltíð og þeyting með sömu orku- og næringarefnasamsetningu á blóðsykursvar, seddu og vitræna getu.
Aðferðir: Í fyrsta hluta rannsóknarinnar var sykurstuðull fundinn fyrir fjórar hafraafurðir samkvæmt staðlaðri aðferðarlýsingu. Þátttakendur voru 28 heilbrigðir einstaklingar á aldrinum 32y ± 2.3y (meðaltal ± SD, spann 20-57y) með BMI 23.3 ± 0.5 kg/m2 (meðaltal ± SD, spönn 17-28 kg/m2). Þátttakendur komu fastandi á rannsóknastofuna um morgun í tvígang. Þeir neyttu hafraafurðar og glúkósalausnar sem hvor um sig innihéldu 50gr af glúkósa. Hvert matvæli var prófað af 10-11 þátttakendum en sumir komu oftar og prófuðu fleiri en eitt matvæli. Blóðsykur var mældur með reglulegu millibili í tvær klukkustundir með fingurstunguprófi. Seinni hluti rannsóknarinnar var slembiröðuð víxluð rannsókn þar sem þátttakendur voru 11 heilbrigðir einstaklingar á aldrinum 40-70 ára með líkamsþyngdarstuðul 29.0 ± 2.0 kg/m2 (meðaltal ± SD, svið 24-39). Þátttakendur komu fastandi á rannsóknarstofuna í tvö skipti. Í annarri heimsókninni fengu þeir máltíð sem samanstóð af jógúrti, ávöxtum, múslí og vatni, og í hinni heimsókninni fengu þeir sömu fæðutegundir sem þeyting. Blóðsykur þátttakendanna var mældur næstu fjóra klukkutíma. Stöðluð próf sem mældu seddu og svengd (VAS) og vitræna getu, einkum skynminni (WM-próf) og athygli (SART-próf) voru lögð fyrir þátttakendur. Þátttakendur fengu svo að borða að vild og mælt var hversu mikið hver og einn borðaði.
Niðurstöður: Marktækur munur var á blóðsykursvari eftir neyslu á graut úr hefðbundnum haframjöli (SS: 70.8 ± 5.5 (meðaltal ± SE)) miðað við graut úr tröllahöfrum (SS: 57.5 ± 5.1 (meðaltal ± SE)), (p = 0.030), og heilum höfrum (SS: 46.0 ± 6.2 (meðaltal ± SE)), (p = 0.019). Niðurstöður úr rannsókn á hafrahringum reyndist ófullnægjandi. Blóðsykursvar var að jafnaði hærra eftir neyslu þeytings í samanburði við sömu máltíð á föstu formi, en eini marktæki munurinn fannst við 150 mínútu (p=0.026). Munur á blóðsykursvari milli einstaklinga var hins vegar til staðar og aðeins hjá einum var svörun við þeyting lægri en eftir máltíð. Enginn marktækur munur fannst á upplifun á svengd eða löngun í að borða eftir máltíðirnar tvær (p>0.05). Fyrstu niðurstöður benda til þess að enginn marktækur munur hafi verið prófum á vitrænni getu. Enginn marktækur munur var á orkuinntöku í lok rannsóknartímans milli máltíðanna tveggja (p>0.05).
Ályktun: Blóðsykursvar var hærra eftir neyslu á vinsælli tegund af hafragraut í samanburði við hafragraut úr heilli kornum. Vísbendingar voru um svipaðan mun þegar morgunmatar er neytt á formi þeytings miðað við að borða matinn sem máltíð og var einstaklingsmunur greinilegur. Enginn munur sást hins vegar á seddu og vitrænni getu. Rannsaka ætti enn frekar vinnslu matvæla með tilliti til áhrifa á efnaskipti líkamans eftir máltíð og áhrif á lýðheilsu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Various degrees of food processing.pdf | 2,66 MB | Lokaður til...01.01.2025 | Heildartexti |