is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21927

Titill: 
  • Mat á lifun forfeðra einstaklinga með Marfan heilkenni
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Marfan heilkenni er tiltölulega algengur arfgengur bandvefssjúkdómur. Sjúkdómurinn er fjölkerfasjúkdómur en þyngst leggst sjúkdómurinn á hjarta- og æðakerfi, augu og stoðkerfi. Sjúkdómurinn orsakast af stökkbreytingu í FBN1 geni sem kóðar fyrir glýkóprótíninu fibrillín-1 og erfist ókynbundið ríkjandi. Gallað fibrillín-1 veldur minnkun í myndun utanfrumuefnis og veldur óbeint ofvirkjun á TGFβ og aukinni tjáningu á MMPs sem veldur breytingum á utanfrumuefninu. Ómeðhöndlaðir sjúklingar hafa skertar lífslíkur og eru skyndidauðsföll þekkt þar sem helsta ástæða dauðsfalla er rof í ósæð. Rannsóknir á arfgengri heilablæðingu hafa sýnt fram á framfærslu og foreldraáhrif sem komu upp á stuttu tímabili á 19. öld. Markmið þessarar rannsóknar, auk þess að kanna skyldleika sjúklinga með Marfan heilkenni, er að skoða lifun sjúklinga og skylduarfbera með tilliti til framfærslu og foreldraáhrifa.
    Efni og aðferðir: Rannsóknarþýðið voru allir þekktir núlifandi einstaklingar með Marfan heilkenni, þekktir látnir forfeður með sjúkdóminn og skylduarfberar. Sjúklingar voru fundnir í gögnum LSH og Erfðafræðinefndar. Upplýsingar um forfeður voru fengnar úr fjölskyldusögum núlifandi sjúklinga, sjúkraskrám, minningargreinum, dánarvottorðum og prestabókum. Við ættrakningu var notast við Íslendingabók og sameiginlegir forfeður fundnir. Í lok rannsóknartímabils var sjúklingum boðið að gefa blóðsýni til að nota í áframhaldandi rannsókn.
    Niðurstöður: Fjöldi þekktra núlifandi einstaklinga með Marfan heilkenni eru 35, 18 karlar og 17 konur. Meðalaldur er 40 ár ± 19, aldursbil 6-90 ár. Flestir (74%) höfðu staðfesta fjölskyldusögu en aðrir (26%) virtust stakir. Fjölskyldurnar voru alls 9 talsins. Einkenni og teikn voru mjög mismunandi milli einstaklinga, jafnvel innan sömu fjölskyldu. Ósæðarteikn fundust hjá 47%, lokuvandamál hjá 50% sjúklinga, stoðkerfiseinkenni hjá 83% og einkenni frá augum hjá 34%. Um 29% hafa farið í aðgerð á ósæð eða lokum, 14% hafa farið í aðgerð á augum og 9% hafa farið í aðgerð vegna stoðkerfiseinkenna. Sjö einstaklingar í tveimur fjölskyldum höfðu farið í genapróf, þau höfðu öll stökkbreytinguna R2680C í útröð 63 í FBN1. Einn látinn einstaklingur hafði farið í genapróf, sá hafði nýbura Marfan heilkenni og hafði stökkbreytinguna C1097Y í útröð 26 í FBN1. Í ættrakningu var hægt að tengja saman 15 einstaklinga (4 fjölskyldur og 1 staka) upp í sömu formóður fædda 1775. Í þeim hópi voru fjölskyldurnar 2 sem höfðu farið í genapróf.
    Ályktanir: Ljóst er að Marfan heilkenni er að finna á Íslandi í svipuðu mæli og í öðrum löndum. Sjúkdómurinn birtist hér í mörgum myndum og finnast allar samsetningar af teiknum og einkennum. Ættir voru raktar eins og hægt var án vitneskju um stökkbreytingar. Gera má sterklega ráð fyrir því að með niðurstöðu úr genaprófum verði hægt að bæta rakningu til muna. Ísland er lítið land og því talið líklegra en ekki að rekja megi fleira sjúklinga saman auk þess sem niðurstöður genaprófanna geri ættrakninguna nákvæmari og áreiðanlegri. Næsta skref er því að genaprófa alla sjúklinga og raðgreina FBN1 genið.

Athugasemdir: 
  • Birt með fyrirvara um breytingu á niðurstöðum
Samþykkt: 
  • 8.6.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/21927


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Elín Óla Klemenzdóttir.pdf906,5 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna