Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/2193
Áfengissýki (alcoholism) á sér stað þegar manneskjan sýnir lífeðlisfræðilega að hún sé háð áfengi með fráhvarfseinkennum (substance withdrawal) eða þolmyndun (tolerance). Samsláttur (co-occurance) hefur fundist á milli áfengissýki og margra annarra geðraskana svo sem kvíðaröskunar og þunglyndis (Nolen-Hoeksema, 2007). Fólk sem þjáist af geðröskun er líklegra til þess að neyta áfengis og nota það sem lyf gegn andlegu álagi. Áfengi getur fjarlægt eða sefað óþægilegar tilfinningar, að minnsta kosti í stuttan tíma og getur það verið ástæða þess að fólk drekkur um of (Edwards, 1982). Áfengi getur samt sem áður undir sumum kringumstæðum aukið kvíða hjá fólki (Kushner, Sher og Beitman, 1990). Félagslegur stuðningur (social support) hefur mörg jákvæð áhrif í för með sér svo sem bætta heilsu, aukna hamingju og minni streitu (Franzoi, 2006). Í rannsókn Beattie og Longabaugh (1999) kom í ljós að bæði almennur félagslegur stuðningur og félagslegur stuðningur sem beindist beint að áfengisneyslu áttu þátt í að manneskjan neytti ekki áfengis fyrstu þrjá mánuðina eftir meðferð. Þessi rannsókn er póstkönnun á vegum Lýðheilsustöðvar sem fór fram í nóvember árið 2007 til mars árið 2008. Alls voru 5906 þátttakendur sem voru valdir með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Þátttakendum var sent kynningarbréf og síðan fengu þeir spurningahefti sem ber heitið „Könnun á heilsu og líðan Íslendinga árið 2007“. Rannsóknartilgáturnar eru tvær, annars vegar að þeim sem neyta meira áfengis líði verr en þeim sem neyta minna áfengis. Hins vegar að áfengisneysla hafi minni áhrif á líðan þeirra sem telja sig vera með góðan félagslegan stuðning. Samkvæmt niðurstöðum jók ánægja með stuðning verulega vellíðan. Áfengisneysla síðustu tólf mánuði dró lítillega úr vellíðan þátttakenda. Ekki kom fram samvirkni á milli áfengisneyslu síðustu tólf mánuði og ánægju með félagslegan stuðning frá öðrum með tilliti til líðanar.