is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/22024

Titill: 
 • Tengsl næringar og umhverfisþátta við myndun ofnæmissjúkdóma
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Algengi ofnæmissjúkdóma, svo sem exems, astma og ofnæmiskvefs, hefur aukist síðastliðna áratugi og er talið að í dag þjáist 30-40% fólks af einum eða fleiri ofnæmissjúkdómum. Grunur er um að aukningin stafi af breytingum á umhverfisþáttum sem stuðli að myndun sjúkdómanna og hafa því fjölmargar rannsóknir verið gerðar á mögulegum áhrifaþáttum ofnæmissjúkdóma, en þó er enn ýmislegt óljóst í þeim efnum. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka tengsl næringar og umhverfisþátta við myndun ofnæmissjúkdóma hjá íslenskum börnum.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og byggir á gagnagrunni fæðuofnæmisrannsóknar (EuroPrevall) sem var framkvæmd árin 2008-2009. Rannsóknarúrtakið samanstóð af 493 grunnskólabörnum í Reykjavík, á aldrinum 7-10 ára, sem höfðu svarað ítarlegum spurningalista ásamt foreldrum sínum. Þar af voru 176 börn sem höfðu svarað játandi þegar spurt var um óþægindi af völdum fæðu, en 317 börn fengin sem viðmið, af þeim sem höfðu svarað sömu spurningu neitandi. Spurt var um ýmsa heilsufarsþætti, þ.á.m. meðgöngu barnsins, heilsufar, næringu og heimilishagi, auk þess sem spurt var um ofnæmissjúkdóma og –einkenni, bæði hjá barninu og fjölskyldu þess.
  Niðurstöður: Börn sem áttu móður eldri en 30 ára við fæðingu voru ólíklegri til að hafa nokkurn tímann haft ofnæmiskvef (p<0,05), börn sem höfðu fengið brjóstamjólk í 7-9 mánuði voru ólíklegri til að hafa haft kláðaútbrot í a.m.k. sex mánuði (p<0,05), og börn sem áttu tvö eða fleiri eldri systkini voru ólíklegri til að hafa haft astma nokkurn tímann (p<0,01) eða kláðaútbrot sl. 12 mánuði (p<0,05). Hins vegar hafði meðgöngulengd undir 37 vikum fylgni við astma sl. 12 mánuði (p<0,05), fæðingarlengd undir 48 cm hafði fylgni við astma sl. 12 mánuði, þrátt fyrir að leiðrétt væri fyrir meðgöngulengd (p<0,05), og fæðingarþyngd yfir 4.000 grömmum hafði fylgni við ofnæmiskvef (p<0,05). Þurrmjólk hafði fylgni við astma (p<0,01), og ofnæmisvæn (e. hypoallergenic) þurrmjólk hafði fylgni við bæði einkenni ofnæmiskvefs nokkurn tímann (p<0,05) og einkenni ofnæmiskvefs sl. 12 mánuði (p<0,01). Fylgni var milli fastrar fæðu fyrir 6 mánaða aldur og ofnæmiskvefs (p<0,05), sem og milli upphafs daggæslu við 0-5 mánaða aldur og kláðaútbrota (p<0,01). Að lokum hafði sýklalyfjanotkun fyrir tveggja ára aldur fylgni við bæði astma sl. 12 mánuði (p<0,05), kláðaútbrot sl. 12 mánuði (p<0,05) og ofnæmiskvef sl. 12 mánuði (p<0,05), auk þess sem alvarlegar öndunarfærasýkingar fyrstu tvö æviárin höfðu fylgni við greiningu astma (p<0,01). Ofangreindar niðurstöður voru reiknaðar út með tilliti til mögulegra blöndunarþátta. Ekki fundust marktæk tengsl ofnæmissjúkdóma eða -einkenna við D-vítamíngjöf fyrstu tvö æviárin, vökva annan en mjólk og vatn eða gæludýr á heimili fyrir tveggja ára aldur.
  Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að það séu tengsl milli ákveðinna umhverfisþátta og ofnæmissjúkdóma, sem og að bæði erfðir og umhverfisþættir séu áhrifaþættir í myndun ofnæmissjúkdóma. Niðurstöður þessarar rannsóknar eru að mörgu leyti í samræmi við aðrar rannsóknir, en sumir þættir hennar stangast þó á við það sem aðrar rannsóknir hafa sýnt.

Samþykkt: 
 • 15.6.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/22024


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_JohannaAndresdottir2015.pdf995.04 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna