is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/22049

Titill: 
 • Ástæður valkeisaraskurða og nýgengi öndunarörðugleika hjá börnum sem fæddust með valkeisaraskurði á Landspítalanum árin 2005-2014
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Börn sem fæðast með valkeisaraskurði (VKS) eru líklegri til að fá öndunarörðugleika fyrst eftir fæðingu en börn sem fæðast um leggöng við sömu meðgöngulengd. Áhættan er í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd. Því er mælt með að VKS séu gerðir eftir að 39 vikna meðgöngu er náð. Tilgangur rannsóknarinnar var að (1) kanna nýgengi VKS fyrir 39 vikna meðgöngu, ástæður þeirra og hversu mörgum hefði verið hægt að fresta þar til 39 vikna meðgöngu var náð, (2) kanna nýgengi öndunarörðugleika barna sem fæddust með VKS og (3) kanna tilgátuna að konum sem eignast barn sem fær öndunarörðugleika eftir VKS sé eðlislægt að ganga lengur með börn sín.
  Efniviður og aðferðir: Fengnar voru upplýsingar um alla valkeisaraskurði sem framkvæmdir voru árin 2005-2014 frá sjúklingabókhaldi LSH. Upplýsinga var aflað úr mæðraskrám og sjúkraskrám barna sem fæddust með VKS á kvennadeild LSH árin 2005 til 2014 eftir ≥ 37 vikna meðgöngu og greindust með öndunarörðugleika vegna votra lungna eða glærhimnusjúkdóms fljótlega eftir fæðingu. Viðmiðahópur samanstóð af börnum sem fæddust með VKS rannsóknartímabilinu en fengu ekki öndunarörðugleika stuttu eftir fæðingu. Einnig voru fengnar upplýsingar úr mæðraskrám um meðgöngulengd systkina barna sem fæddust með VKS og fengu öndunarörðugleika eftir fæðingu og borið saman við meðgöngulengd systkina barna sem ekki fengu öndunarörðugleika í kjölfar VKS.
  Niðurstöður: Á tímabilinu fæddust 2048 börn með valkeisaraskurði á Landspítalanum. Af þeim fengu 58 (2,8%) öndunarörðugleika. Nýgengi var í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd, þ.e. 7,3% við 37 vikna meðgöngu, 3,8% við 38 vikna meðgöngu, 2,5% við 39 vikna meðgöngu og 1,1% við 40-42 vikna meðgöngu. Nýgengi öndunarörðugleika eftir 37-38 vikna meðgöngu var marktækt hærri en eftir 39-42 vikna meðgöngu (4,9% og 2,4%; p gildi=0,0062). Alls voru framkvæmdir 1949 VKS á tímabilinu. Aðgerðir sem framkvæmdar voru við 37-38 vikna meðgöngu voru samtals 477. Af þessum VKS hefði mögulega mátt fresta 285 (59,7%) aðgerðum til 39 vikna meðgöngu eða 14,6% af heildarfjölda valkeisaraskurða. Konur sem áttu börn með valkeisaraskurði sem fengu öndunarörðugleika eftir fæðingu gengu að meðaltali 6 dögum lengur en 40 vikur með sín fyrri eða seinni börn (p gildi=0,0026) þegar fæðing hófst sjálfkrafa eða var framkölluð.
  Ályktanir: Nýgengi öndunarörðugleika hjá nýburum sem fæðast með valkeisaraskurði er í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd. Mikilvægt er að bíða með aðgerð þar til 39 vikna meðgöngu er náð, ef þess er nokkur kostur, til þess að draga úr líkum á öndunarörðugleikum hjá börnunum. Mæður sem fæddu börn með VKS sem fengu öndunarörðugleika gengu að meðaltali 6 dögum lengur með sín börn heldur en viðmiðahópur og því hugsanlega betra að framkvæma VKS seinna á meðgöngunni á þeim mæðrum sem vitað er að hafa gengið lengur með sín börn.

Samþykkt: 
 • 15.6.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/22049


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS ritgerð.pdf2.54 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna