is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/22051

Titill: 
 • Árangur LASIK sjónlagsaðgerða á Íslandi
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Sjónalagsaðgerðir hafa verið framkvæmdar á Íslandi frá síðustu aldamótum. Síðan þá hafa tugþúsundir aðgerða verið framkvæmdar hér á landi en árangur þeirra hefur verið lítið kannaður. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna árangur og öryggi LASIK sjónlagsaðgerða á Íslandi.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tók til allra einstaklinga sem gengust undir LASIK sjónlagsaðgerðir hjá Augljósi laser augnlækningum á einu ári (2013). Alls voru framkvæmdar 968 LASIK sjónlagsaðgerðir (490 einstaklingar) og uppfylltu 264 nærsýn augu og 155 fjarsýn augu skilyrði úrtakshóps. Upplýsingarnar voru sóttar í sjúkraskrárkerfi stöðvarinnar og var rannsóknin afturskyggn. Niðurstöður um árangur sjónlagsaðgerðanna voru settar fram samkvæmt alþjóðlegum stöðlum þar sem kostur var á. Lögð var áhersla á að meta nákvæmni, verkan og öryggi sjónlagsaðgerða.
  Niðurstöður: Sjónskerpa án leiðréttingar (UCVA) hjá nærsýnum einstaklingum mældist í 100% tilvika 20/40 (6/12) eða betri og í 98% tilvika 20/20 (6/6) eða betri eftir sjónlagsaðgerð. Í 15% tilvika mældist UCVA eftir sjónlagsaðgerð að minnsta kosti einni línu betri á Snellen sjónspjaldi en besta sjónskerpa með leiðréttingu (BCVA) var fyrir sjónlagsaðgerð og í 76% tilvika mældist hún sú sama, í rúmlega 10% tilvika mældist hún verri. Í 100% tilvika féll leiðrétt kúlujafngildi innan ±0,50 D frá settu takmarki. UCVA hjá fjarsýnum einstaklingum mældist í 100% tilvika 20/63 (6/18) eða betri, í 97% tilvika 20/40 eða betri og í 90% tilvika 20/20 eða betri eftir sjónlagsaðgerð. Í 16% tilvika mældist UCVA eftir sjónlagsaðgerð að minnsta kosti einni línu betri á Snellen sjónspjaldi en BCVA var fyrir sjónlagsaðgerð á og í 58% tilvika mældist hún sú sama, í um 25% tilvika mældist hún verri. Í 100% tilvika féll leiðrétt kúlujafngildi innan við ±1,00 D frá settu takmarki. Öryggi LASIK sjónlagsaðgerða reyndist mikið og tapaði enginn einstaklingur tveimur eða fleiri línum þegar BCVA var skoðuð eftir sjónlagsaðgerð. Tíðni enduraðgerða mældist auk þess svipuð og í erlendum rannsóknum.
  Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna góðan árangur LASIK sjónlagsaðgerða á Íslandi og er árangurinn fyllilega sambærilegur við það sem best þekkist í erlendum rannsóknum. Líkt og í erlendum rannsóknum er árangur sjónlagsaðgerða við nærsýni betri en við fjarsýni og eru ýmsar tilgátur nefndar því til skýringar.

Samþykkt: 
 • 15.6.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/22051


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
árangur-lasik-final.pdf1.07 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna