is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/22066

Titill: 
  • Nýraígræðslur í íslenska sjúklinga 2000-2014: Afdrif þega og græðlinga
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur:
    Ígræðsla nýra er kjörmeðferð við lokastigsnýrnabilun og fást gjafanýru ýmist frá lifandi eða látnum gjöfum. Ígræðslur nýrna frá látnum gjöfum krefjast mikils viðbúnaðar árið um kring og hafa ætíð farið fram erlendis en frá 2003 hafa ígræðslur nýrna frá lifandi gjöfum verið framkvæmdar á Landspítala. Mikilvægt er að bera árangur hér saman við aðrar þjóðir þar sem hér eru fáar aðgerðir framkvæmdar árlega og aðstæður sérstakar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna afdrif íslenskra nýraþega á 15 ára tímabili, einkum með tilliti til lifunar og virkni nýragræðlinga.
    Efni og aðferðir:
    Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra íslenskra sjúklinga sem gengust undir ígræðslu nýra á árunum 2000–2014. Klínískar upplýsingar fengust úr Íslensku nýrnabilunarskránni, gagnagrunni Scandiatransplant, sjúkraskrárkerfi Landspítala og Læknasetursins. Notast var við Kaplan-Meier aðferð með log-rank-prófi til að bera saman hópa og Cox-aðhvarfsgreining til að meta lifun græðlinga og sjúklinga, og línulega aðhvarfsgreiningu til að meta tengsl gaukulsíunarhraða (rGSH) hjá þegum 6-12 mánuðum eftir ígræðslu við aðra þætti.
    Niðurstöður:
    Alls voru 149 nýru grædd í 146 sjúklinga á rannsóknartímabilinu (miðgildi aldurs 44 ár (3-76), 58,3% karlar). Endurígræðslur voru 21 talsins. Á Landspítala voru gerðar 79 ígræðslur en 70 aðgerðir fóru fram erlendis, þar af 18 nýru úr lifandi gjöfum. Því fékk 65% sjúklinga nýra frá lifandi gjafa. Miðgildi (spönn) aldurs við ígræðslu var 45 (3-76) ár hjá þegum nýrna úr lifandi gjöfum en 50 (9-69) ár þegar um látna gjafa var að ræða. Af sjúklingum sem fengu nýra frá látnum gjafa höfðu 96% gengist undir skilunarmeðferð fyrir ígræðslu á móti 69% þega nýrna úr lifandi gjöfum. Kaldur blóðþurrðartími nýrna frá látnum gjöfum var 20,5 (5-34) klst.. HLA-samræmi var marktækt betra þegar um lifandi gjafa var að ræða en 69% voru með ≥3 HLA-sameindir sameiginlegar á móti 36,5% í tilviki látinna gjafa. Af
    lifandi gjöfunum voru 79,4% líffræðilega skyldir þeganum. Alls létust 11 (7,4%) sjúklingar á tímabilinu, þar af 10 með starfandi græðling. Ef afklippt (e. censored) er við dauða með starfandi græðling töpuðust 11 græðlingar á tímabilinu, þar af 6 (54,5%) vegna langvinnrar græðlingsbilunar. Eins árs
    lifun græðlinga, reyndist vera 98% (95% öryggismörk (95%ÖM) 95,7-100), fimm ára lifun 95,5% (95%ÖM 92-99,1) og tíu ára lifun 88,1% (95%ÖM 80,4-96,5). Ekki fannst marktækur munur á lifun nýraþega né lifun græðlinga með hliðsjón af tegund gjafa né þegar ígræðslur á Landspítala voru bornar saman við aðrar stofnanir. Þegar stakir þættir voru skoðaðir í Cox-aðhvarfsgreiningu jók hækkandi aldur gjafa hættu á græðlingstapi (Hættuhlutfall (HH) 1,076 (95%ÖM 1,014-1,143)) og hærri r-GSH 6-12 mánuðum eftir ígræðslu virtist minnka hættuna á græðlingstapi (HH 0,949 (95%ÖM 0,910-
    0,992)). Fjölþáttagreining sýndi að engir aðrir þættir en þessir tengdust græðlings lifun. Fjölþátta línuleg aðhvarfsgreining sýndi m.a. að sjálfstæð tengsl voru milli rGSH hjá þegum 6-12 mánuðum eftir ígræðslu og aldurs gjafa (β=-0,56, p=0.002), aldurs þega (β=-0,31, p=0,01) og rGSH gjafa eftir aðgerð (β=0,44, p=0,0065).
    Ályktun:
    Hlutfall nýrna frá lifandi gjöfum meðal íslenskra nýraþega er hátt samanborið við aðrar þjóðir. Lifun græðlinga og nýraþega virðist ekki síðri en gerist á sjúkrahúsum þar sem aðgerðir eru tíðari. Þó smæð þýðisins og góð lifun takmarki greiningu áhættuþátta benda niðurstöður til þess að m.a. aldur gjafa og GSH þega á fyrsta árinu eftir ígræðsluaðgerðina gætu haft áhrif lifun græðlinga.

Samþykkt: 
  • 16.6.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/22066


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BSritgerd_ThordurP_2015_loka.pdf5.9 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlysing_TPP.pdf57.4 kBLokaðurYfirlýsingPDF