Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/22070
Verkefnið gekk út á að fóðra lambgimbrar með þrennum hætti og kanna hvort marktækar breytingar yrðu á þunga, holdastigun og frjósemi þeirra. Markmiðið var að kanna árangur og hagkvæmni þess að nota bygg fyrir gemlinga að vetri í samanburði við kjarnfóðurblöndu og heyfóður eingöngu. Fóðurmeðferðirnar voru þrjár; eingöngu hey, hey og kjarnfóðurblanda, hey og bygg og voru tilraunatímabilin frá 11. nóv. – 16. des. og aftur 3. feb. – 17. mars.
Tilraunin var gerð á Hesti veturinn 2014-2015 og voru 120 ásetningsgimbrar notaðar í hana. Gimbrunum var skipt upp í 6 hópa með 20 gimbrum í hverjum hóp. Hópunum var deild á þrjár meðferðir, þannig að tveir hópar fengu hverja fóðurmeðferð eða 40 gimbrar.
Kjarnfóðurblanda og bygg var skammtað samkvæmt áætlun og heyfóður vigtað að og frá á hverjum degi. Gimbrarnar voru vigtaðar reglulega og á seinna fóðrunartímabilinu var einnig holdastigað. Auk þess var fósturtalning gerð í lok febrúar.
Marktækur munur (P<0,05) var á þungabreytingum og frjósemi gimbra eftir fóðurmeðferðum þar sem kjarnfóðurmeðferðin sýndi yfirburði yfir hinar meðferðirnar. Tölfræðipróf sýndu hinsvegar ekki marktækan mun (P>0,05) á holdastigsbreytingum né meðal þurrefnisheyáti milli fóðurmeðferða.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS Byggfodrun_gemlinga.pdf | 246,38 kB | Opinn | Skoða/Opna |