Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/22099
Tilgangur rannsóknar: Um helmingur þeirra sjúklinga sem greinast með krabbamein ganga í gegnum geislameðferð einhvertímann á sínu lækningarferli. Ytri geislameðferð er gefin með línuhraðli. Nýr línuhraðall var tekinn í notkun á Geislaeðlisfræðideild Landspítalans árið 2013 og nýr búnaður keyptur samhliða honum. Hluti af því sem að keypt var samhliða nýja línuhraðlinum var nýtt geislamælikerfi sem heitir Delta4. Við geislameðferð er gæðaeftirlit mikilvægur þáttur til að tryggja öryggi og að sjúklingar fái viðeigandi meðferð. Þetta verkefni er gæðaverkefni fyrir Geislaeðlisfræðideild Landspítalans og er tilgangur þess að meta hvernig mælingar Delta4 stemma við útreikninga eðlisfræðinga og að fá samanburð á nýrri meðferð við þá eldri.
Efni og aðferðir: Úrtak þessarar rannsóknar voru sjö sjúklingar. Fjórir karlmenn með blöðruhálskirtilskrabbamein og þrjár konur með krabbmeina í legi eða tengdum líffærum. Gerðar voru nýjar VMAT geislaáætlanir fyrir sjúklinga 1-4 (karlmennirnir) og nýjar fjögurra reita geislaáætlanir fyrir sjúklinga 5-7 (konurnar). Hver sjúklingur var með tvær geislaáætlanir og hver geislaáætlun mæld fimm sinnum með Delta4 geislamælikerfinu.
Niðurstöður: Miðað við niðurstöður þessarar rannsóknar sést að Delta4 á í meiri vandræðum með að mæla flóknari geislaáætlanir. Ekki er að sjá mikinn mun á geisladreifingu í áætlað meðferðarsvæði heldur er helsti kostur VMAT geislaáætlana fram yfir fjögurra reita geislaáætlun að með VMAT næst að hlífa áhættulíffærum betur. Við samanburð VMAT og IMRT hvað varðar geislaskammt í áhættulíffæri er ekki að sjá sama mun þar og með VMAT og fjögurra reita geislaáætlanirnar. Viðmið Geislaeðlisfræðideildar Landspítalans fyrir gammakröfu er ekki nógu strangt, of auðvelt er að uppfylla það viðmið að 90% mældra punkta sé með gammastuðul minni en einn með gammakröfu 3% DD/ 3 mm DTA. Það er alltaf DD en ekki DTA sem er að hafa áhrif á hversu vel mæling kemur út. Það hversu stórt áætlað meðferðarsvæði er virðist ekki hafa áhrif á hversu vel tekst til við mælingar með Delta4. Stöðugleiki Delta4 geislamælikerfisins er metinn góður miðað við niðurstöður rannsóknarinnar, staðalfrávik mælinga er einungis á bilinu 0,3%-1,5%. Nauðsynlegt er þó að gera frekari rannsóknir með mun stærra úrtak til þess að geta fengið marktæka tölfræði.
Ályktanir: Núverandi kröfur sem gerðar eru til geislaáætlana eru of mildar. Lagt verður til að eðlisfræðingar endurmeti hversu strangar kröfurnar skuli vera. Núverandi krafa er að 90% mældra gilda uppfylli gammastuðul minni en einn með 3% DD og 3 mm DTA. Lagt verður til að viðmiðið verði hert í að 90% mældra punkta uppfylli kröfu um að gamma stuðull sé minni en einn við 3% DD og 2 mm DTA.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Prentun__UnaMargrét.pdf | 1.48 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |