Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/22106
Í skrifum mínum í lokaskýrslu þessari kemur fram sú einbeitta skoðun mín að nauðsynlegt sé að fjölbreytileiki sé hafður að leiðarljósi í starfi barna í gegnum skapandi vinnu og gagnrýna hugsun. Ég segi frá minni viðleitni til að skapa þessar aðstæður fyrir hóp níu ára barna í gegnum tónlistarspuna, þar sem börnin fengu tækifæri til að reyna nýja hluti, kafa ofan í sköpunarkraftinn og velta fyrir sér mikilvægum spurningum um frið og mannréttindi.
Skapandi skólastarf er eftirsóknarvert en ekki nógu almennt í skólakerfinu að mínu mati og markmið menntunar samkvæmt 29. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er ekki virt sem skildi. Þar segir m.a. að menntun eigi að veita börnum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum og rækta hæfileika sína og þannig undirbúa þau til að lifa ábyrgu lífi í þjóðfélaginu. Að mínu mati býður hið einsleita skólakerfi sem við búum við ekki upp á þessi tækifæri fyrir börnin.
Börn og foreldrar voru nýir áhorfendur í þessari vinnu. Börnin sem flytjendur og tónskáld og foreldrar þeirra sem áhorfendur nýrrar tegundar óperu og nýrra hliða á börnunum þeirra. Auk þess voru báðir áhorfendahópar að uppgötva skapandi leið í námi sem stuðlaði að nýjum og sterkum félagslegum tengingum innan hópsins.
Á þeim tveimur árum sem ég stundaði nám við Listaháskóla Íslands í NAIP náminu fór ég í gegnum mikla sjálfsskoðun á tónlistarkonunni mér. Ég vann meðvitað í því að opna nýjar gáttir og steig inn í hið óþekkta til að kynnast fleiri möguleikum en hinni klassísku tónlistarhefð sem hefur svo langa, fastmótaða hefð að baki. Þessi kúvending á sjálfri mér sem tónlistarkonu var ekki síst markmið mitt og afrakstur NAIP námsins og fyrir það er ég ákaflega þakklát.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Sundurlaus ópera um veður og frið.pdf | 835,32 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |