is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2222

Titill: 
  • Alþjóðleg staðfesting þjóðarmorðanna á Armenum 1915-1917
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Inngangur.
    Það var veikt Ottómanaveldi sem gekk í lið með Miðveldunum í fyrri heimsstyrjöldinni árið 1914. Þetta mikla veldi, sem á hátindi sínum um árið 1700 átti landamæri í þremur heimsálfum, var aðeins skugginn af því sem það eitt sinn var. Þrátt fyrir það voru fjölmargir þjóðflokkar og mismunandi menningarhópar innan veldisins. Í von um að snúa þessari ógæfuþróun við tóku ráðamenn landsins þá ákvörðun að standa að sameiningu tyrknesks samfélags innan veldisins, sem fólst meðal annars í því að þeir sem ekki féllu að stefnu stjórnvalda voru þyrnir í augum þeirra. Það var við þessar aðstæður að fjöldi Armena lét lífið. Síðan þá hafa staðið yfir deilur hvort hér hafi verið á ferð þjóðarmorð eða ekki. Þjóðarmorð eru skilgreind hjá Sameinuðu þjóðunum með eftirfarandi hætti:
    Grein 2
    Á núverandi þingi, þýðir þjóðarmorð einhver af eftirfarandi aðgerðum, framin með það í huga að eyðileggja, sem heild eða að hluta, hóp, sem stendur saman af ríkisborgurum, þjóðerni, kynþætti eða trúarlegum skoðunum, sem svo:
    (a) myrða meðlimi hópsins;
    (b) valda alvarlegum andlegum eða líkamlegum skaða til meðlima hópsins;
    (c) veita hópnum viljandi lífsskilyrði sem ætlað er til að koma á líkamlegri eyðileggingu að hluta til eða í heild sinni;
    (d) koma á ráðstöfunum sem ætlað er til þess að koma í veg fyrir fæðingar innan hóps;
    (e) flytja börn hópsins með valdi til annars hóps.
    Það var ekki fyrr en árið 1944 sem Peter Lemkin, pólskur lögfræðingur, skrifaði ýtarlega og lögfróða grein þar sem þjóðarmorðahugtakið var fyrst mótað í nútímalegum skilningi. Skrif Lemkins voru mikilvægur þáttur í því að ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um öftrun og refsingu fyrir þjóðarmorð var haldin árið 1948. Þar var ofangreind greinargerð samþykkt 9. desember og tekin í notkun þann 1. janúar árið 1951. Því er nútímaskilgreining á hugtakinu þjóðarmorð ekki sú sama og þegar hin meintu þjóðarmorð áttu sér stað eins og fjallað verður um seinna í ritgerðinni.
    Þar sem aðgerðir Tyrkja gegn Armenum eru gífurlega viðkvæmt mál fyrir fjölda manns hefur mikið verið ritað um það og af mismunandi ásetningi. Sumir hafa skrifað um málið til að afla hinum armenska „sannleik“ stuðnings og aðrir hafa skrifað um það til að afla hinum tyrkneska „sannleik“ stuðnings. Í ritgerðinni verða þessi sjónarmið krufin og þess freistað að komast að niðurstöðu hvor „sannleikurinn“ er réttur, ef það er yfir höfuð hægt. Aðalmarkmið þessarar ritgerðar verður þó að greina frá því hvaða lönd hafa viðurkennt atburðina sem þjóðarmorð, hvenær það var gert og með hvaða rökum. Einnig verður rakin umræða í löndum sem ekki hafa viðurkennt atburðina sem þjóðarmorð og athuguð rök fyrir þeirri ákvörðun.
    Auk þess verður fjallað um þau áhrif þessara atburða á samskipti þjóða í nútímanum og á nútímapólitík, svo sem umsókn Tyrkja til Evrópusambandsins. Tekið verður á því „áróðursstríði“ sem Tyrkir og Armenar stunda og saka hvor annan um að misnota, sínum málstað til framdráttar. Ekki verður tekið undir rökfærslu Tyrkja, sem segja að engin þjóðarmorð hafi átt sér stað, né rökfærslu Armena, sem berjast fyrir viðurkenningu þjóðarmorða, heldur greint frá mismunandi rökum landanna beggja og viðhorfum til þeirra sjónarmiða. Ritgerðin gerir ekki kröfu um að sjónarmið höfundar verði tíundað og mun höfundur gæta hlutleysis eftir bestu getu. Hlutleysi er hins vegar vandmeðfarið og samkvæmt rökum Tyrkja hefur höfundur nú þegar brotið hlutleysi sitt með notkun á orðinu þjóðarmorð. Í umfjöllunum um atburðina sem áttu sér stað í skugga fyrri heimsstyrjaldar var orðið þjóðarmorð oftast haft innan gæsalappa, eða orðið meint haft fyrir framan. Úr þessu hefur hins vegar dregið á síðustu áratugum og er nú til dags oftast talað um þjóðarmorð án nokkurra aukaorða eða -merkja.

Samþykkt: 
  • 18.4.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/2222


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Inngangur_fixed.pdf48.17 kBLokaðurInngangurPDF
festing_fixed.pdf1.29 MBLokaðurHeildartextiPDF