Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/22282
Í þessari ritgerð er leitast við að tilgreina og útskýra þær reglur sem gilda hér á landi og í Evrópu um stofnun og slit hjúskapar, þegar hjúskapur hefur erlend tengsl. Hjúskapur er í eðli sínu formföst stofnun og mótast réttarreglurnar á þessu sviði af ríkjandi trúarbrögðum og siðferðilegum viðhorfum í hverju landi. Réttarreglur um stofnun hjúskapar hafa lítið breyst seinustu áratugina en meiri breyting hefur hins vegar orðið á þeim reglum sem gilda um slit hjúskapar, sérstaklega í þeim löndum þar sem kaþólsk trú er ríkjandi en í sumum kaþólskum löndum var skilnaður lengi vel ekki leyfður.
Á seinustu árum hafa orðið miklar framfarir í samræmingu lagaskilareglna á milli ríkja Evrópusambandsins í hjúskaparrétti, m.a. með setningu reglugerða um lagaval hjóna og lögsögu ríkja í skilnaðarmálum. Gilda þessar reglugerðir annað hvort milli allra aðildarríkja sambandsins eða aðeins þeirra ríkja sem eiga aðild að þeim.
Til þess að varpa ljósi á framangreindar reglur verður í ritgerðinni farið yfir helstu réttarheimildir sem gilda um lagaskilarétt á sviði hjúskaparréttar. Skoðaðar verða viðeigandi íslenskar réttarheimildir, reglugerðir Evrópusambandsins og óskráðar meginreglur lagaskilaréttar. Þá verður dómaframkvæmd skoðuð og litið til skoðana fræðimanna á réttarsviðinu.
Helstu niðurstöður ritgerðarinnar eru í þá veru að hér á landi, samanborið við Evrópu, gilda að mörgu leyti ólíkar reglur um gildi lagavalssamninga hjóna er viðkemur lögum sem gilda eiga um skilnað þeirra. Slíkir lagavalssamningar eru fullgildir á milli ákveðinna ríkja Evrópusambandsins, en ólíklegt að samningarnir yrðu teknir gildir hér á landi þar sem meginreglan er sú að íslenskir dómstólar dæmi eftir íslenskum lögum. Einnig er misjafnt hvað ríki telja vera lög heimalands hjóna þegar leysa á úr skilnaðarmáli þeirra en þetta getur skipt töluverðu máli vegna ólíkrar skilnaðarlöggjafar á milli landa. Þá eru reglur varðandi viðurkenningu erlendra skilnaðardóma milli ríkja Evrópusambandsins ekki jafn þröngar og hér á landi.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Íslenskar og Evrópskar lagaskilareglur um stofnun og slit hjúskapar (2).pdf | 1.05 MB | Locked Until...2030/05/15 | Complete Text |