Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2232
Líkamsárásir, hórdómsbrot og óviðeigandi meðferð hrossakjöts voru meðal mála sem komu inn á borð prófasta og biskupa á prestastefnum víðsvegar í Skálholtsbiskupsdæmi á 17. öld og fyrri hluta 18. aldar. Prestastefnur voru dómstólar kirkjunnar á þessum tíma og tengdust málin sóknarprestum landsins oft beint, því það voru guðsmennirnir sjálfir sem urðu uppvísir að hegðun sem ekki var talin æskileg. Málin, sem þessi ritgerð snýst um, voru skráð í prestastefnubækur Skálholtsbiskupanna Brynjólfs Sveinssonar, Þórðar Þorlákssonar og Jóns Vídalíns og eru þær varðveittar á Þjóðskjalasafni Íslands. Þær hafa nú allar verið prentaðar með nútíma stafsetningu og gafst því gott tækifæri til að skoða þætti í daglegu lífi presta á tímabilinu 1639 til 1720 út frá dómstóli kirkjunnar. Athyglin beindist helst að dæmum um vald milli sóknarbarna og sóknarpresta. Fyrri rannsóknir um efnahag sóknarpresta á tímabilinu sýna að margir þeirra voru jafn illa settir fjárhagslega og sóknarbörn þeirra. Prestar gátu því varla haft vald yfir sóknarbörnunum vegna auðs. Einnig sýna rannsóknir að menntun prestanna var oft á tíðum af skornum skammti og hjátrú þeirra jafn sterk og meðal sóknarbarnanna. Hvernig gátu prestar því haft áhrif á sóknarbörn sín eða völd yfir þeim þegar efnahagsleg staða og menningarlegt viðhorf þeirra var á svipuðu stigi? Einnig vöknuðu upp spurningar hvort sóknarbörnin höfðu eitthvað vald yfir sóknarpresti sínum og þá hvernig þau gætu beitt því. Ímyndin um ósjálfbjarga sóknarbörn gagnvart sóknarprestinum sem hafði sáluhjálp þeirra í hendi sér vék fyrir annarri mynd um sóknarprest sem bæði var kominn upp á náð og vilja sóknarbarna sinna sem og prófastsins. Dæmin sem tekin eru fyrir í ritgerðinni sýna togstreitu bæði milli sóknarbarna og sóknarpresta þeirra og síðan milli sóknarpresta og kirkjunnar, því það var á prestastefnum sem endanlega var skorið úr um hver hafði í raun vald yfir hverjum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
heilags_fixed.pdf | 265.86 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |