is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/22328

Titill: 
 • Þroski minnstu fyrirburanna 1988-2012
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Framfarir í meðferð minnstu fyrirburanna (fæðingarþyngd ≤1000 g) hafa verið miklar á síðastliðnum áratugum og lífslíkur þessa sjúklingahóps hafa aukist umtalsvert. Börnin sem lifa af verða sífellt fleiri og þau fæðast minni og óþroskaðri en áður. Vegna smæðar sinnar og vanþroska eru þessi börn útsett fyrir ýmsum vandamálum, bæði strax eftir fæðingu og seinna á lífsleiðinni. Áhættan á skertum taugaþroska er mikil og eykst í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd. Rannsóknir sýna að allt að fjórðungur hópsins glímir við alvarlegar hamlanir (e. severe disability) seinna á lífsleiðinni en hátt í helmingur hópsins þroskast eðlilega. Skertum taugaþroska fylgja margskonar vandamál sem spanna breytt svið; skerðing á vitsmunaþroska, málþroska, hreyfifærni, hegðun, sjón og heyrn. Markmið þessarar rannsóknar voru að skoða þroska og hamlanir minnstu fyrirburanna á Íslandi og meta hvaða þættir spá fyrir um seinkaðan þroska og hömlun hjá þessum börnum. Auk þess hvort að samhengi sé á milli ófullnægjandi vaxtar á fyrstu tveimur aldursárunum og þroska minnstu fyrirburanna.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra barna sem fæddust á Íslandi 1988-2012, voru ≤1000 g við fæðingu og útskrifuðust á lífi. Upplýsingar um meðgöngu, fæðingu og nýburaskeið barnanna voru fengnar úr mæðraskrám og sjúkraskrám barnanna. Upplýsingar um vöxt eftir útskrift voru sóttar á heilsugæslustöðvar. Til að meta þroska og hamlanir innan rannsóknarhópsins voru gögn frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins (GRR) fengin fyrir þau börn sem þangað var vísað.
  Niðurstöður: Af 194 börnum lágu fyrir upplýsingar um 189. 61 barni (32,3%) var vísað á GRR. Í þeim hópi voru 13 börn (6,9%) með væga frávik í þroska án hömlunar og 32 börn (16,9%) með hömlun. Af þeim voru 7 (3,7%) með væga hömlun (e. mild disability) og 25 (13,2%) með mikla hömlun (e. major disability). Eftir leiðréttingu fyrir mögulegum blöndunarþáttum stóðu fjórir þættir eftir sem sjálfstæðir áhættuþættir fyrir hömlun. Börn með hömlun (n=32) höfðu lægri Apgar eina mínútu eftir fæðingu (p=0,028, ÁH=2,4, ÖB: 1,14-5,07) samanborið við börn án hömlunar (n=157). Hlutfall fjölbura var hærra í hópi hömlunar (p=0,003, ÁH=2,21, ÖB: 1,19-4,09) og næringargjöf með sondu eftir fæðingu hófst seinna (p=0,007, ÁH=2,14, ÖB:1,11-4,11). Heilablæðing af gráðu 3-4 hafði einnig forspárgildi fyrir síðari hömlun (p=0,02, ÁH=4,08, ÖB:1,69-9,80). Í kringum tveggja ára aldur voru börn með hömlun marktækt vaxtarskertari í hæð en börn án hömlunar (p=0,0461). Einnig voru þau vaxtarskertari í þyngd en sá munur náði ekki tölfræðilega marktækni (p=0,07).
  Ályktanir: Tæplega 17% minnstu fyrirburanna glíma við hömlun og samrýmist það fyrri rannsóknum á minnstu fyrirburunum á Íslandi. Sjálfstæðir áhættuþættir fyrir hömlun voru að fæðast sem fjölburi, lágur Apgar eftir eina mínútu, heilablæðing af gráðu 3-4 og að hefja næringargjöf í sondu eftir meira en 4 daga eftir fæðingu. Meðgöngulengd var ekki áhættuþáttur eins og við var að búast og skýrist ef til vill af litlu þýði og löngu rannsóknartímabili. Í kringum tveggja ára aldur voru börn með hömlun vaxtarskertari í hæð en börn án hömlunar. Ekki var marktækur munur á þyngd hópanna eins og við var að búast og kann það að skýrast af litlu þýði og vöntun upplýsinga.

Samþykkt: 
 • 2.7.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/22328


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Þroski minnstu fyrirburanna Olga Sigurðardóttir 2015.pdf4.2 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna