Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/22635
Skáldsagan Punktur punktur komma strik eftir Pétur Gunnarsson kom fyrst út árið 1976 og náði óvenjumiklum vinsældum meðal lesenda hér á landi. Í sögunni er fylgst með dreng sem elst upp í Reykjavík á eftirstríðsárunum frá fæðingadegi hans þar til hann er orðinn um það bil 12 ára.
Skáldsagan er ekki einungis skondin lýsing á þessu tímabili Íslandssögunnar heldur kemur hún sífellt á óvart með trúverðugum persónulýsingum þar sem höfundur sýnir lesandanum heiminn frá sjónarhorni barnsins. Í sjálfsævisögulegri bók sinni Veraldasaga mín lætur Pétur Gunnarsson í ljós hrifningu á kenningu svissneska sálfræðingsins Jean Piaget sem fjallar meðal annars um vitsmunaþroska barna og sérkenni á hugsun þeirra. Í þessari ritgerð er gengið út frá því að tengsl séu á milli kenningar Piaget og þess hvernig aðalpersónan í skáldsögunni er mynduð.
Í fyrsta hluta ritgerðarinnar er rætt um tengsl milli sálfræði og bókmennta í heimsbókmenntum og íslenskum bókmenntum. Rök eru færð fyrir því að slík tengsl séu einnig sýnileg milli Punktur punktur komma strik og kenningar Jean Piaget. Í öðrum hluta ritgerðarinnar er kenning Piaget kynnt. Fjallað er um helstu atriði kenningarinnar um vitsmunaþroskastig, félagslegan þroska og siðferði barna. Í þriðja hluta ritgerðarinnar eru brot úr Punktur punktur komma strik skoðuð með hliðsjón af kenningu Piaget. Markmið þessa hluta er að finna vísbendingar um kenninguna í sögunni og að varpa nýju ljósi á aðalpersónu hennar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Hvernig verður maður til_PPKS og Piaget.pdf | 386,06 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
hi_kapa_Roberta.pdf | 166,54 kB | Opinn | Kápa | Skoða/Opna |