is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/22665

Titill: 
 • Undanþágulistar. Undanþágur frá heimild opinberra starfsmanna til verkfallsaðgerða á grundvelli 19. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna
 • Titill er á ensku Lists of Exemptions. Exemptions from public servants right to strike on the basis of Act on collective agreements of public servants no. 94/1986, Article 19
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Verkfallsréttur opinberra starfsmanna nýtur verndar stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu og annarra alþjóðlegra sáttmála sem Ísland hefur fullgilt. Verkfallsréttur hefur verið eitt helsta vopn stéttarfélaga í gegnum tíðina til að ná fram bættum kjörum félagsmanna. Verkfallsréttur opinberra starfsmanna sætir þó ákveðnum takmörkunum sem fram koma í lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Réttarstaða opinberra starfsmanna er að mörgu leyti frábrugðin rétti launafólks á hinum almenna vinnumarkaði. Ólíkt starfsmönnum á almennum vinnumarkaði var opinberum starfsmönnum bannað, samkvæmt lögum nr. 33/1915 um verkfall opinberra starfsmanna, að fara í verkfall. Eftir ötula kjarabaráttu, sem stóð allt frá byrjun tuttugustu aldar, sömdu opinberir starfsmenn loks um verkfallsheimild.
  Árið 1976 var verkfallsréttur opinberra starfsmanna viðurkenndur í fyrsta sinn, þ.e. með lögum nr. 29/1976. Framangreind lög veittu félagsmönnum í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja rétt til þess að fara í allsherjarverkfall í þeim tilgangi að knýja fram gerð aðalkjarasamninga. Samkvæmt lögunum starfaði sérstök kjaradeilunefnd sem var ætlað að skipa menn í vinnu til að hægt væri að halda uppi nauðsynlegri öryggis- og heilbrigðisþjónustu í landinu, á meðan á verkfalli opinberra starfsmanna stóð. Í tíð kjaradeilunefndar sköpuðust miklar deilur um störf og valdsvið hennar, sem leiddu til þess að lögin voru felld úr gildi og ný heildstæð lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, lög nr. 94/1986, tóku gildi. Meginmarkmið löggjafans við setningu laganna var að veita opinberum starfsmönnum sérstöðu hvað varðar ráðningarkjör og veita ríkinu aðhald sem atvinnuveitenda.
  Með lögunum var opinberum starfsmönnum veitt heimild til þess að gera verkfall með þeim skilyrðum og takmörkunum sem koma fram í lögunum. Lögfestar voru undanþáguheimildir frá verkfallsrétti opinberra starfsmanna þar sem komið var á nýju fyrirkomulagi sem fólst í því að ríkinu eða sveitarfélögunum var ætlað að birta sérstaka undanþágulista yfir þá starfsmenn sem undanþegnir væru verkfallsheimild, ef til verkfalls kæmi.
  Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 94/1986 kom fram að framangreindum undanþágulistum væri ætlað að taka við því hlutverki sem kjaradeilunefnd hafði haft með höndum, samkvæmt þágildandi lögum nr. 29/1976, og hafði valdið ágreiningi milli aðila í verkföllum. Sú spurning vaknar hvort að undanþágulistarnir þjóni þeim tilgangi sem þeim var ætlað í upphafi, þ.e. að koma í veg fyrir ágreining milli aðila um þau störf sem undanþegin skulu vera verkfallsheimild. Er hugsanlega þörf á breytingum á lögunum frá því að þau tóku gildi árið 1986 eða er hugsanlega þörf á nákvæmari leiðbeiningum um framkvæmd birtinga á undanþágulistunum? Við matið er mikilvægt að hafa í huga hagsmuni beggja aðila, þ.e. annars vegar hagsmuni stéttarfélaga sem felast í stjórnarskrárvörðum rétti þeirra til þess að fara í verkfall og hins vegar skyldur opinberra aðila til að halda uppi lögbundinni þjónustu gagnvart almenningi.
  Í ritgerðinni er gerð grein fyrir undanþágulistum, skv. 19. gr. laga nr. 94/1986, hvaða þýðingu þeir hafa í ljósi lögbundinna heimilda opinberra starfsmanna til verkfallsaðgerða á grundvelli laga nr. 94/1986 og á hvaða grundvelli heimilt er að takmarka verkfallsrétt ákveðinna starfa vegna nauðsynjar starfsins fyrir samfélagið.
  Byrjað er á að fjalla um stjórnarskrárvernd verkfallsréttarins í 2. kafla. Í 3. kafla er gerð grein fyrir sérstöðu opinbers starfsmannaréttar. Í 4. kafla er fjallað um verkfallsrétt opinberra starfsmanna. Í 5. kafla er gerð grein fyrir meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og hvernig hún birtist í réttarframkvæmd. Í 6. kafla, sem inniheldur meginumfjöllun ritgerðarinnar, er fjallað um þær undanþágur frá verkfallsrétti opinberra starfsmanna sem eru heimilar á grundvelli laga nr. 94/1986. Loks eru niðurstöðurnar dregnar saman í 7. kafla, sem jafnframt er síðasti kafli ritgerðarinnar.

Samþykkt: 
 • 4.9.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/22665


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
LOKASKJAL_ritgerð_VÞÞ.pdf516.04 kBLokaður til...01.09.2050HeildartextiPDF