Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/22704
Ritgerðin fjallar um stöðu norskra drottninga á miðöldum, allt frá hálfgoðsagnakenndum persónum konungsagna á 10. öld til Margrétar Valdimarsdóttur á síðari hluta 14. aldar. Til grundvallar umfjölluninni liggur sú spurning hvaða viðhorf hinn norræni heimur hafi haft til kvenna og möguleika þeirra til valda. Erfitt er að tímasetja þau viðhorf með nákvæmum hætti en leiða má líkur að því að elstu bókmenntir geymi viðhorf til drottninga eins og þau voru á tólftu öld, jafnvel þeirri elleftu með rætur í fyrri tíma. Meðal mikilvægustu atriða fyrir drottningar á þeim tíma er staða kvenna sem fulltrúa eigin ættar í beggjaættakerfi og eignaréttur kvenna. Vitsmunir kvenna voru lagðir að jöfnu við vitsmuni karla og konum var ætlað hlutverk í deilum sem upp spruttu í samfélaginu og lausnum á þeim, bæði með því að eggja til hefnda og hvetja til sátta. Færð eru rök fyrir því að norrænar konur á miðöldum hafi haft pólitísk áhrif en að þær hafi ekki verið valdamiklar, þar sem viðhorf norræns samfélags til kvenlíkamans voru þau að hann væri í vissum grundvallaratriðum ólíkur karlmannslíkamanum.
Konur voru því hvattar til að hafa áhrif á rás atburða með því að tala við karlmenn og fá þá til að breyta gjörðum sínum en lattar til þess að skipa lægra settum karlmönnum fyrir eða beita sjálfar líkamlegu ofbeldi. Með þetta í huga er litið á lýsingar konungasagna á fyrstu norsku drottningunum, sérstaklega með tilliti til þess hvort þær hafi eggjað konunginn til hefnda með hefðbundnum hætti eða hvort þeim sé lýst sem hvatamanni að sáttum og milligöngumanni. Niðurstaðan er sú að konungasögur leggja meiri áherslu á stöðu drottningar sem milligöngumanns sem er í samræmi við evrópsk viðhorf til drottninga. Litið er til atriða á borð við þess hlutverks drottninga að bera konunginum syni, krýningu og forréttindum barna þeirra til þess að erfa hásætið. Talsverðar breytingar urðu á þessum atriðum á tímabilinu en vitneskja heimilda um norskar drottningar stingur þó í stúf við viðteknar niðurstöður fræðimanna um mikilvægi þessara atriða fyrir aðrar drottningar í Evrópu.
Ályktað er að talsverðar breytingar hafi orðið á stöðu norskra drottninga á þrettándu öld sem hafi síðan aukist á þeirri fjórtándu. Mikilvægi drottningarinnar fyrir ímynd konungsins sem eiginkonu og móður eykst og það leiðir til breytinga á stöðu hennar sem að mörgu leyti stakk í stúf við hefðbundin norræn viðhorf til kvenna og valda. Mikilvægast er að drottningar fá yfirráðarétt yfir eignum sínum og möguleiki þeirra til áhrifa í ríkisstjórn barnungs sonar síns eykst verulega. Viðbrögð samtíma þessara kvenna við auknum umsvifum þeirra voru sjaldan öfgafull eða fordæmandi en þó má sjá merki um að þessi breyting gerðist ekki átakalaust. Breytt staða drottninga náði ekki að umbylta ríkjandi viðhorfum til kvenna. Drottningar voru ýmist álitnar líklegar til að vera of undirgefnar karlmanni sem átti ekki löglegt tilkall til valda, eða þá líklegar til að ógna réttmætum völdum karlkyns valdhafa.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MA-ritgerð.pdf | 445,14 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |