Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/22835
Þetta lokaverkefni til BA-gráðu í tómstunda- og félagsmálafræði er tvískipt og samanstendur af tómstundamenntunarnámskeiði fyrir börn áfengissjúkra á aldrinum tíu til tólf ára og fræðilegri greinargerð til stuðnings námskeiðinu. Við sem að verkefninu stöndum álítum að hægt sé að gera betur við þennan jaðarhóp barna, en börn áfengissjúkra geta þurft að glíma við margvíslegar neikvæðar afleiðingar af heimilisaðstæðum sínum og eru jafnan undir miklu og langvarandi álagi vegna þeirra. Tilgangur verkefnisins er fyrst og fremst að búa til úrræði til þess að hjálpa börnum áfengissjúkra foreldra, en ekki síður að varpa ljósi á þennan málaflokk og auka vitund almennings um þau vandamál sem fylgja því að alast upp hjá virkum áfengissjúklingi. Í greinargerðinni er fjallað um sjúkdóminn áfengissýki og eðli hans, farið er yfir rannsóknir á börnum áfengissjúkra og gerð grein fyrir þeim neikvæðu afleiðingum sem þau geta orðið fyrir. Fjallað er um tómstundir og mikilvægi þeirra og hugmyndin um tómstundamenntun sem verkfæri til hjálpar þessum hópi rökstudd. Farið er yfir meginstöpla námskeiðisins og rök færð fyrir þeim þáttum sem námskeiðinu er ætlað að taka á. Í síðari hluta lokaverkefnisins er uppbygging námskeiðisins útlistuð og má þar finna handrit að tímum námskeiðisins, kröfur um hentugt húsnæði, hráefni og verkfæri og fjölda starfsmanna. Við teljum að með námskeiðinu sé hægt að hlúa að börnum áfengissjúkra og veita þeim fræðslu og verkfæri til þess að takast á við erfiðar aðstæður.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meistari í eigin lífi - greinargerð - BA-verkefni.pdf | 894.96 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Meistari í eigin lífi - námskeið - BA-verkefni.pdf | 810.42 kB | Lokaður til...05.05.2055 | Námskeið |