is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2284

Titill: 
 • Þjóðarsáttin 1990: Forsagan og goðsögnin
Námsstig: 
 • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Þríhliða kjarasamningar á milli verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og ríkisins sem undirritaðir voru 2. febrúar 1990 og kenndir eru við þjóðarsátt hafa fest sig í sessi sem efnahagslegt afrek. Með þessum samningum var klippt á áralangar víxlhækkanir launa og verðlags og verðbólgudraugurinn kveðinn niður. Þarna var markað upphaf til aukins stöðugleika í efnahagsmálum og grunnur var lagður að góðæri tíunda áratugarins.
  Þannig hefur þjóðarsáttin 1990 skipað sér á bekk með merkisatburðum 20. aldar og
  hefur yfir sér goðsagnakennt yfirbragð.
  Þegar frá leið virtist almenn sátt ríkja um sögulega tilurð þjóðarsáttarinnar. Hin
  viðtekna söguskoðun er að þáverandi ríkisstjórn hafi ekki haft styrk til að taka á efnahagsvandanum. Aðilar vinnumarkaðarins hafi átt allt frumkvæði að samningunum,
  gerð þeirra og eftirfylgni.1 Ríkisstjórnin var áhugalítill áhorfandi í þessu ferli, sem þó reyndist henni himnasending.2 Þremur einstaklingum er þakkað öðrum fremur,
  „bjargvættinum“ Einari Oddi Kristjánssyni, formanni Vinnuveitendasambands Íslands
  (VSÍ), Ásmundi Stefánssyni, forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Guðmundi J.
  Guðmundssyni, formanni Dagsbrúnar og Verkamannasambands Íslands (VMSÍ).3
  Þessari söguskoðun andæfði forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson í ávarpi
  sem hann flutti á málþingi til heiðurs Steingrími Hermannssyni áttræðum 22. júní 2008.
  Forsetinn hélt því fram að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafi af herkænsku í
  efnahagsmálum, lagt grundvöll að skynsamlegum kjarasamningum og þar með stýrt
  þjóðinni úr ólgusjó verðbólgu inn á lygn mið stöðugleika og hagsældar. Þetta þurfti að
  gerast á bak við tjöldin til að forystumenn stéttarsamtaka fengju svigrúm og sviðsljósið
  og jafnframt heiðurinn.4 Í kjölfarið urðu gríðarlega hörð viðbrögð, bæði leikir og lærðir risu upp og mótmæltu meintri sögufölsun forsetans.5 Í dag eru því í gangi tvær afar ólíkar söguskoðanir um tilurð þjóðarsáttarinnar.
  Af hverju urðu svo harkaleg viðbrögð við söguskoðun forsetans? Skiptir hún
  einhverju máli? Af hverju vilja allir þessa Lilju kveðið hafa? Tekist er á um hverjum
  þjóðarsáttin er að þakka, hverjir kváðu niður verðbólgu og komu á stöðugleika. Ef betur
  1 Vef. Guðmundur Magnússon, „Forseti Íslands og þjóðarsáttin.“, – Markaðurinn 2. júlí 2008, bls. 12., –
  Morgunblaðið 23. júní 2008, bls. 10, – Vef. Andrés Magnússon, „Lærdómur sögunnar.“,
  2 Sama heimild,
  3 Guðmundur Magnússon, Frá kreppu til þjóðarsáttar, bls. 255–259, – Vef. Guðmundur Magnússon, „Forseti Íslands og þjóðarsáttin.“
  4 Vef. Ávarp forseta Íslands,
  5 Vef. Guðmundur Magnússon, „Forseti Íslands og þjóðarsáttin.“, – Guðmundur Magnússon, Frá kreppu til þjóðarsáttar, bls. 257, – Markaðurinn 2. júlí 2008, bls. 12., – Morgunblaðið 23. júní 2008, bls. 10,
  3 er að gáð má sjá að andstæðar söguskoðanir skiptast eftir pólitískum línum. Því má leiða
  líkur að því að um pólitíska hagsmuni er að tefla. Ef vel tekst til er mögulegt að halda á lofti ákveðnum pólitískum hugmyndum, sem aftur getur leitt til pólitískra áhrifa og
  valda.
  Í ritgerðinni verður farið ítarlega yfir þróun efnahags– og kjaramála á níunda
  áratugnum og aðdragandi og tilurð þjóðarsáttarinnar rakin. Meginmarkmiðið er að draga fram heildstæða mynd af þessari sögu og sýna fram á gildi þjóðarsáttarinnar í
  efnahagslegum og pólitískum skilningi. Skoðað verður samband sögu og minninga og
  hvaða áhrif það hefur á sköpun og varðveislu sögunnar. Að lokum verður kannað hvað
  sé hæft í þeim söguskoðunum sem hér er lýst að ofan.
  Til að ná framangreindum markmiðum verður leitast við að svara ýmsum spurningum varðandi tilurð þjóðarsáttarinnar og sköpunarsögu. Af hverju ríkti
  efnahagslegur óstöðugleiki og há verðbólga á níunda áratugnum? Er hægt að finna
  „höfund“ þjóðarsáttarinnar? Hverjum er þjóðarsáttin að þakka? Hver var ávinningur
  þjóðarsáttarinnar? Af hverju var brugðist svo harkalega við skoðun forsetans? Hvaða
  valdastofnanir höfðu áhrif á að ofangreind útgáfa sögunnar varð ríkjandi? Hvaða máli
  skipti bautasteinn Einars Odds Kristjánssonar í sköpun og varðveislu sögunnar?
  Tilurð þjóðarsáttarinnar hefur lítt verið rannsökuð af sagnfræðingum. Einungis
  tveir þeirra hafa fest þessa sögu á blað, Helgi Skúli Kjartansson í yfirlitsriti sínu, Ísland á 20. öld, og Guðmundur Magnússon í bók sinni, Frá kreppu til þjóðarsáttar. Rit Helga Skúla, Ísland á 20. öld, er yfirlitsrit og því er eðli málsins samkvæmt stiklað á stóru í sögu lands og þjóðar á 20. öld. Þeir sem aðhyllast þá söguskoðun að hlutur ríkisstjórnarinnar í þjóðarsáttinni hafi verið hverfandi, hafa rökstutt mál sitt með tilvísunum í verk Guðmundar Magnússonar, Frá kreppu til þjóðarsáttar. Í bók sinni
  skrifaði Guðmundur 28 blaðsíðna kafla um þjóðarsáttina. Hann segist hafa fengið
  afdráttarlausa niðurstöðu rannsóknar sinnar með því að ræða við stjórnmálamenn,
  embættismenn, og forystumenn í verkalýðshreyfingu og meðal vinnuveitenda á tíma þjóðarsáttar.6 Samkvæmt tilvísanaskrá þjóð arsáttarkafla bókarinnar er að finna
  eftirfarandi viðmælendur: Einar Oddur Kristjánsson, formaður VSÍ 1989–1992,
  Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ 1980–1992, Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ 1986–1999 og Arnar Sigurmundsson, formaður Landssambands fiskvinnslustöðva.7 Heimildarmenn Guðmundar eru þrír forystumenn atvinnurekenda og 6 Vef. Guðmundur Magnússon, „Forsetinn og þjóðarsáttin“
  7 Guðmundur Magnússon, Frá kreppu til þjóðarsáttar, bls. 330–333.4 einn forseti ASÍ. Það sem vekur mesta athygli við rannsókn Guðmundar er að lausn
  Þrastar Ólafssonar frá 1985 er hvergi að finna. Guðmundur kemst að þeirri niðurstöðu
  að þjóðarsáttin hafi verið „himnasending fyrir ríkisstjórnina“8 og þakkar Einari Oddi
  Kristjánssyni, Ásmundi Stefánssyni, og Guðmundi J. Guðmundssyni.9 Sér til fulltingis
  vísar Guðmundur í rit Helga Skúla, Ísland á 20. öld, er hann hafnar söguskoðun
  forsetans.
  Þar sem rannsóknir á þjóðarsáttinni eru af skornum skammti, þurfti að leita
  heimilda víða. Í fyrsta kafla ritgerðarinnar er aðallega stuðst við heimildir úr dagblöðum
  og af vefsíðum. Í öðrum köflum er stuðst við Alþingistíðindi, Ársskýrslur Seðlabanka
  Íslands, dagblöð, bók Guðmundar Magnússonar, Frá kreppu til þjóðarsáttar
  Fundargerðabók stjórnar Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, Hagskinnu, rit Þjóðhagsstofnunar, Skýrslur forseta um störf Alþýðusambands Íslands, ýmsar
  fræðigreinar hagfræðinga og ævisögur Guðmundar J. Guðmundssonar, Halldórs
  Björnssonar og Steingríms Hermannssonar. Í umfjöllun um sögu og minni er stuðst við
  rit Maurice Halbwachs, On collective Memory, Pierre Nora, Realms of Memory,
  Sigurðar Gylfa Magnússonar, Sjálfssögur. Minni, minningar og saga, og grein
  Guðmundar Hálfdanarson, „Sameiginlegar minningar og tilvist íslenskrar þjóðar.“
  Einnig er stuðst verulega við munnlegar frásagnir nokkurra þeirra manna er stóðu í
  eldlínu vinnumarkaðar og stjórnmála. Einungis einn þeirra manna sem gengt hafa
  trúnaðarstörfum fyrir ASÍ féllst á að veita viðtal, Grétar Þorsteinsson. Eins féllst
  einungis einn fulltrúi VSÍ á að veita viðtal, Þórarinn V. Þórarinsson.
  Með þessari rannsókn ætlar höfundur að freista þess að fylla upp í eyður fyrri
  rannsókna með nýjum heimildum og sjónarhornum, sem vonandi leiða til spennandi og ögrandi niðurstaðna.

Samþykkt: 
 • 28.4.2009
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/2284


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
nsson_BA_fixed.pdf471.61 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna