is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/22896

Titill: 
 • Að komast til meðvitundar: Bragðvísi Spinoza
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Lykilorð þessarar ritgerðar eru conatus, meðvitund og frelsi. Conatus er almenn hugtak sem Spinoza notar um eðli allra hluta, að leitast við að styrkja og viðhalda eigin tilvist. Löngun er conatus mannsins, sem er meðvituð hvöt. Rannsóknarspurning ritgerðarinnar er: „að hvaða marki má tengja frelsi mannsins við meðvitund hans?“. En þar sem frelsi mannsins felst ekki í því að hafa frjálsan vilja eða gera það sem manni sýnist, þá sting ég upp á að aukning á meðvitund mannsins samsvari meira frelsi. Í fyrstu tveim köflunum fer ég sérstaklega í saumanna á tveimur ritgerðum sem fjalla um ‚conatus’ hugtakið með mjög ólíkum hætti. En í þriðja og síðasta kafla víkka ég sviðið og legg áherslu á að skiljanleiki hluta ráðist af stærri heild, eða samhengi, sem hlutirnir eru hluti af og þurfa að aðlagast. Allir hlutir eru mótanlegir og mótast í innbyrðis samskiptum sínum. Þetta tengist rannsóknarspurningunni þannig, að maðurinn er ekki meðvitaður um eigin huga,
  líkama né ytri hluti nema í gegnum umbreytingar líkamans sem koma til af áreiti ytra hluta á líkamann.
  Næst fer ég í kenningar nokkurra Spinozafræðinga um það hvernig best er að skýra meðvitund mannsins, samkvæmt heimspeki Spinoza, og að hvaða leyti hún ráðist af athafnamætti, flækjustigi og/eða hrifnæmi sem hver einstaklingur byr yfir. Ytra áreiti er skilyrði fyrir meðvitund, en hún eykst hinsvegar í réttu hlutfalli við það að vitsmunirnir styrkjast og hugarstarf manns verður virkara. Frelsi er svo alltaf tengt vitsmunum, en öll þekking er sjálfsþekking samkvæmt Spinoza, bara mismikil. En þar sem aðeins Guð getur verið frjáls samkvæmt ströngustu skilgreiningu, þá eru menn meira og minna frjálsir. Frelsi þýðir ekki að fá að vera í friði og gera það sem manni sýnist, heldur að hafa sjálfstjórn og hugsa sjálfstætt. Að auki þarf maður að öðlast ákveðið innsæi þar sem maður er „meðvitaður um sjálfan sig, Guð og aðra hluti“ (EV39s). Ef maður veit ekki afhverju maður hugsar eins og maður hugsar og bregst við hlutum með þeim hætti sem maður gerir og misreiknar aðstæður sínar, þannig að maður annaðhvort vanmetur eða ofmetur möguleika sína, þá er frelsi manns mjög takmarkað. Frelsi er í raun undantekningarástand sem getur aðeins komið til sem afleiðing af þrotlausri andlegri vinnu, auk jákvæðra ytri skilyrða og stuðnings. En menn eru almennt, að áliti Spinoza, sjálfhverfir og andlega latir. Þessi sjálfhverfa leiðir manninn út í að yfirfæra mannlega eiginleika yfir á náttúruna og eigna hlutum tilgang og ímynda sér merkingu og „sannleika“ á bakvið alla hluti. Frjálsmaður byr hinsvegar yfir siðferðilegum styrkleika (fortitudo), en það felur í sér tvær hliðar annarsvegar þrautseigju (animositas) sem snýr að manni sjálfum og hinsvegar göfuglyndi (generositas) sem snýr að samskiptum manns við aðra.
  Það eru samt margar hindranir sem þarf að ryðja úr vegi áður en frelsi hans geti orðið að raunhæfum möguleika. Hér er um náttúrulega fordóma að ræða sem í ofan á lag er haldið við af menningu, hefðum og tungumálinu. En samkvæmt Spinoza er ekki hægt að stunda heimspeki án þess að ráðast gegn þessum fordómum sem standa frelsi mannsins fyrir þrifum. Heimspeki Spinoza er almennt talinn mjög þung, en það er ekki aðeins vegna þess að það sé ekki hægt að stytta sér leið til frelsis, heldur er áreynslan sjálf sem fer í að skilja sjálfan sig, Guð og aðra hluti, sem virkir hugann og er því lækningin fólgin í sjálfu meðalinu. Við erum hluti af hinni einu sönnu Veru, sem er hrein virkni. Að því marki að okkur tekst að virkja hugarstarf okkar og vera meðvituð um það hvernig allt tengist og er hvert öðru háð, tjáum við þetta virka eðli Verunnar sem er stanslaus framleiðsla á sjálfu sér. En allt það besta er jafn erfitt og það er sjaldgæft (EV42s).

Samþykkt: 
 • 15.9.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/22896


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MA-ritg-SÞF.pdf788.42 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna