Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/22930
Þetta lokaverkefni er umfjöllun og greining á fyrirtækjaflórunni sem er að myndast úti á Granda með vísun til þess sem er að gerast erlendis. Síðast liðin ár hafa orðið miklar breytingar á þessu svæði, en í stað þess að vera eingöngu fragt- og fiskihöfn er þetta nú að verða svæði þar sem fólk og fyrirtæki sækjast í að vera og þar eru að opna kaffihús, veitingastaðir, ýmsar verslanir, söfn og fleira af því tagi.
Fyrrum hafnar- eða iðnaðarsvæði hafa notið vinsælda út um allan heim sem staðir fyrir nýsköpunarsvæði (innovation district). Markmið þessarar rannsóknar að komast að því hvort og þá hvernig nýsköpunarhverfi sé að myndast við höfnina og bera það saman við önnur slík hverfi erlendis, það er 22@ hverfið í Barcelona, Darling Harbour í Sydney, Brooklyn Navy Yard og Meatpacking District í New York, Seaport Innovation District í Boston, South Lake Union hverfið í Seattle og Songdo International Business District í Kóreu. Með þessari rannsókn leitast ég eftir því að svara rannsóknarspurningunni:
Stefnir Grandinn í að verða nýsköpunarsvæði?
Skoðað var hvernig Reykjavíkurhöfn og svæðið úti á Granda er að þróast með því að taka eigindleg viðtöl við þá sem reka fyrirtæki á þessu svæði. Einnig var rætt við tvo aðila sem höfðu þekkingu á viðfangsefninu en þeir voru Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur og Bjarki Vigfússon, hagfræðingur og verkefnastjóri hjá Íslenska Sjávarklasanum.
Niðurstöður leiddu í ljós að þróunin sem hefur átt sér stað úti á Granda síðast liðin tvö ár hefur haft í för með sér ýmsar breytingar. Viðmælendur voru sammála um að á svæðinu hefði orðið mikil uppbygging, mannlíf þar væri miklu fjölbreyttara en áður og ferðamönnum hefði fjölgað til muna. Einnig kom í ljós að í fyrstu völdu fyrirtæki svæðið vegna lágrar leigu miðað við eldri verslunarkjarna eins og Laugaveg og Kringluna, en nú sæktu enn fleiri fyrirtæki í svæðið vegna uppgangsins þar. Flestir voru sammála um að hverfið stefndi í að verða líflegt og skemmtilegt nýsköpunarsvæði.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Helga-Gunndís-Þórhallsdóttir-new.pdf | 9.14 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |