Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/22938
Í þessari ritgerð er fjallað um rannsókn á hvataþáttum starfsmanna sem starfa í nýsköpunar- og tæknifyrirtæki á Íslandi sem og á gildum fyrirtækisins. Rannsóknin var framkvæmd á tímabilinu febrúar til ágúst árið 2015. Markmið hennar var að skoða hvataþætti starfsmanna fyrirtækisins, hvort að hægt væri að greina samræmi í þeim á milli starfsmanna fyrirtækisins sem og að kanna hvort að þættirnir samræmdust gildum fyrirtækisins. Notast var við blandaða aðferðafræði, það er bæði eigindlega og megindlega. Alls voru tekin tvö viðtöl við starfsfólk fyrirtækisins, framkvæmdar voru tvær þátttökuathuganir og eins var rafrænt hvatapróf sent á alla starfsmenn fyrirtækisins. Svarhlutfall hvataprófsins var 61%.
Fyrirtækið sem til rannsóknar var aðhyllist nýstárlega samskipta- og stjórnunarhætti. Þar eru til að mynda ekki ákveðnir stjórnendur heldur velja starfsmenn sér það hlutverk innan fyrirtækisins sem þeir telja að henti þeim best hverju sinni. Fyrirtækið er ekki með skilgreind gildi samkvæmt fræðunum en hefur þó mótað sér tilgang sem það notar sem leiðarljós í sinni daglegu starfsemi. Til þess að mæta markmiðum rannsóknarinnar greindi rannsakandi gildi fyrirtækisins út frá þeim gögnum sem söfnuðust og urðu gildin alls fjögur talsins. Með hvataprófinu sem stuðst var við mátti bera kennsl á sextán grunnhvataþætti starfsmannanna, bæði veika og sterka.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að heilt yfir samræmast hvataþættir starfsmanna nokkuð vel gildum fyrirtækisins. Þær gefa einnig til kynna að hvataþættir starfsmanna fyrirtækisins séu að einhverju leyti sameiginlegir eða áþekkir.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Skemman_rétt_eintak_Sigrún_Halldórsdóttir.pdf | 3,11 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |