is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/22946

Titill: 
 • Fjármagnsskipan og fjárhagsleg staða íslenskra fyrirtækja á árunum 2001-2013. Eru íslensk fyrirtæki skuldsettari nú en þau voru fyrir fjármálaáfallið 2008?
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Ritgerð þessari er ætlað að skoða hvernig fjármagnsskipan og fjárhagsleg staða íslenskra fyrirtækja var á árunum 2001-2013 og skoða hvort skuldsetning þeirra sé meiri eftir fjármálaáfallið 2008, fjárhagslega endurskipulagningu og afskriftir en hún var fyrir áfallið. Bankarnir hafa fengið mikla gagnrýni í ferli fjárhagslegrar endurskipulagningar þess efnis að allt of skuldsett félög séu útskrifuð úr leiðum bankanna og það geti hamlað fjárfestingu og samkeppni.
  Tímabilið sem er til skoðunar er árin 2001-2013. Það tímabil endurspeglar miklar breytingar í fjármálakerfinu, s.s. einkavæðingu stærstu banka landsins, mikla útlánaaukningu og vöxt bankakerfisins, kerfishrun, endurskipulagningu skulda fyrirtækja og einstaklinga, afskriftir skulda og endurreisn.
  Fjármálakreppan á Íslandi er ekki einsdæmi og hafa margar þjóðir reynslu af endurskipulagningu skulda í kjölfar kreppu. Mismunandi hefur verið tekið á málum og fóru Japanir t.a.m. illa úr úr sinni kreppu og voru lengi að jafna sig á móti því að aðgerðir í kjölfar kreppunnar í Suður-Kóreu eru oft nefndar sem dæmi um vel heppnuð viðbrögð stjórnvalda og fjármálakerfisins til endurreisnar.
  Endurskipulagning skulda fyrirtækja fór frekar hægt af stað í kjölfar hrunsins. Aðgerðir í upphafi áttu illa við minni og meðalstór fyrirtæki. Erfitt var fyrir kröfuhafa að setja skilyrði um að núverandi eigendur legðu félögum sínum til aukið hlutafé gegn því að halda áfram eignarhlut sínum. Auðvelt var að færa reksturinn yfir í ný fyrirtæki og skilja kröfuhafana eftir með skuldug og eignalaus fyrirtæki. Auk þess voru sum fyrirtæki ekki tilbúin til þess að semja við bankana þar sem mikil óvissa var um skuldastöðu þeirra. Leiðir til endurskipulagningar minni og meðalstórra fyrirtækja urðu skýrari með tilkomu beinu brautarinnar sem hófst í árslok 2010, en þar buðu fjármálafyrirtæki fyrirtækjum að endurskipuleggja skuldir með fyrirvara um betri rétt.
  Fjármálafyrirtæki hafa verið gagnrýnd síðustu ár fyrir að afskrifa ekki nóg og að fyrirtæki hafi verið endurskipulögð með allt of háar skuldir. Haldið hefur verið fram að fjárfestingar í atvinnulífinu hafi verið litlar í kjölfar hrunsins og það sé hárri skuldsetningu um að kenna. Íslensk fyrirtæki virðast hafa kosið að styðjast frekar við lánsfjármagn en aukið eigið fé þegar kom að fjármögnun á vexti fyrirtækjanna. Skuldsetning var því mikil árin fyrir hrun. Of miklar afskriftir hefðu hugsanlega geta falið í sér gjöf til eigenda fyrirtækja og veitt þeim fyrirtækjum, sem fóru óvarlega í skuldsetningu fyrir hrun og fóru í gegnum endurskipulagningu, aukið samkeppnisforskot á fyrirtæki sem ekki fengu afskrifað og hefðu í kjölfarið lent í fjárhagslegum erfiðleikum. Endurskipulagning skulda er langt frá því að vera auðvelt ferli.
  Rannsóknin sem gerð var hér, á fjárhagsstöðu 50 veltumestu fyrirtækja í átta atvinnugreinaflokkum, sýnir skuldsetningu íslenskra fyrirtækja á tímabilinu 2001-2013. Með því að velja 50 veltumestu fyrirtækin í nokkrum atvinnugreinaflokkum gafst kostur á að skoða hvort munur væri á milli atvinnugreina auk þess sem mikill breytileiki fékkst í úrtakið, þá sérstaklega hvað varðar stærð fyrirtækja. Heildarúrtakið fyrir hvert ár er því 400 fyrirtæki. Við greiningu þessara fyrirtækja voru skoðaðir helstu liðir rekstrar- og efnahagsreiknings er snúa að fjárhagsstöðu og skuldsetningu. Skoðuð var þróun þessara þátta á tímabilinu, sem spannar mjög fjölbreytta tíma. Tímabilið 2003-2007 endurspeglaðist af ofgnótt lánsfjár í kjölfar einkavæðingar bankanna og gífurlegs innstreymis erlends fjármagns inn í íslenskt hagkerfi auk lausafjárþurrðar á árunum 2006-2007. Því lauk með kerfishruni á árinu 2008 og í kjölfarið tók við tímabil lítillar eftirspurnar eftir lánsfé auk þess sem áhersla var á að draga úr skuldsetningu, bæði hjá fyrirtækjunum sjálfum og einnig fjármálafyrirtækjum í gegnum afskriftir yfirskuldsettra fyrirtækja.
  Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að skuldsetning fyrirtækja á Íslandi er mjög há. Eiginfjárhlutfall er almennt lágt og skuldsetning há í hlutfalli við EBITDA og stór hluti fyrirtækja myndi teljast vera yfirskuldsettur sé horft til kenninga ýmissa fræðimanna. Sé horft á eiginfjárhlutfall þá er staða nokkurra atvinnugreina betri en hún var árin fyrir hrun. Erfitt er að segja til um hvort þessi fyrirtæki hafi fengið of mikið afskrifað eða hvort rekstrarforsendur þeirra hafi batnað svo mikið á síðustu árum. Fjárhagsstaða fyrirtækja í úrtakinu virðist svipuð og skuldsetning þeirra ekki vera meiri árið 2013 en hún var á árunum fyrir fjármálaáfallið árið 2008.

Samþykkt: 
 • 18.9.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/22946


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Árni Rúnar Magnússon.pdf1.39 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna