is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/23004

Titill: 
 • Breytingar á holdafari unglinga frá 16-18 ára : og tengsl holdafars við neyslu á sykruðum drykkjum
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Það er oft mikil spenna sem fylgir 16 ára unglingum og þeim breytingum sem eiga sér gjarnan stað þegar skólaskyldunni er lokið og framhaldsskólinn hefst. Heilsuhegðun þessa hóps breytist oftar en ekki til hins verra þar sem vinahópurinn getur haft meiri áhrif á lífsstíl heldur en foreldrarnir. Margir hætta í íþróttum á þessum tíma ásamt því að gera breytingar á fæðuvali. Flestir eru að klára að taka út kynþroskann á þessum tíma en honum geta fylgt breytingar á vaxtarlagi og aukin fitusöfnun. Markmið rannsóknarinnar í heild var að kanna líkamsástand og heilsufar framhaldsskólanema í tveimur skólum á höfuðborgarsvæðinu við 16 og 18 ára aldur. Aðaláherslan var að skoða hvaða breytingar ættu sér stað á holdafari unglinganna á þessum tveimur árum. Undirmarkmið var að gera samanburð á breytingum á holdafari og neyslu gos- og svaladrykkja á tímapunktunum tveimur. Sérstök áhersla var lögð á sykraða gosdrykki vegna hugsanlegra tengsla þeirra við holdafar og kviðfitusöfnun.
  Verkefnið er hluti stórrar langtímarannsóknar sem stendur yfir í tengslum við verkefnið Heilsueflandi framhaldsskólar (HeF). Við úrvinnslu þessa verkefnis var aðeins litið til þeirra þátttakenda sem höfðu mætt í allar holdafarsmælingar og skilað spurningalistum á báðum tímapunktum (n= 109). Til að meta holdafar voru hæð og þyngd þátttakenda mæld sem síðan var notað til að reikna út líkamsþyngdarstuðul (BMI). Stöðluð frávik líkamsþyngdarstuðuls (BMIsds) voru jafnframt reiknuð. Ummál mittis og upphandleggs var mælt, hlutfall mittis og hæðar (WHtR) var reiknað og gerð var húðfellingamæling á sjö stöðum til þess að fá út heildarfituhlutfall. Þátttakendur svöruðu ítarlegum spurningalista um hegðun og lífshætti sem meðal annars innihélt spurningar um val á drykkjum.
  Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að íslenskir unglingar fitna milli 16 og 18 ára aldurs hvort sem litið er til BMI, hlutfalls líkamsfitu með húðfellingamælingum eða ummálsmælinga. Mun fleiri flokkuðust yfir kjörþyngd út frá BMI við 18 ára aldur en 16 ára; tíðni stelpna yfir kjörþyngd fór úr 29,1% í 40,4% og tíðni stráka yfir kjörþyngd úr 21,3% í 25,5% (p<0,001). Ummál upphandleggs og WHtR jókst einnig marktækt hjá báðum kynjum (p<0,001-0,028). Jafnframt var marktæk aukning á fituhlutfalli hjá stelpum (p<0,001). Almennt var neysla þeirra gos- og svaladrykkja sem voru skoðaðir ekki mikil og fáir sem drukku slíka drykki daglega. Lítil aukning varð á neyslu unglinga á sykruðum gosdrykkjum milli ára þar sem 20% stelpna og 24,3% stráka juku neysluna en mun fleiri drógu úr neyslu sykraðra gosdrykkja; eða 36,4% stelpnanna og 40,5% strákanna. Þær stelpur sem drukku aldrei sykraða gosdrykki lækkuðu mittismálið og WHtR marktækt borið saman við þær sem minnkuðu eða héldu óbreyttri neyslu milli ára (p=0,009-0,014). Engin tengsl fundust í samanburði á holdafari og neyslu sykraðra gosdrykkja hjá strákunum.
  Tíðni ofþyngdar á meðal unglinga í framhaldsskóla jókst frá 16-18 ára aldurs og hlutfall líkamsfitu og ummál mittis einnig. Niðurstöðurnar benda jafnframt til að aukin neysla sykraðra gosdrykkja á þessum aldri geti ýtt undir kviðfitusöfnun hjá stúlkum, en erfitt er að ráða í orsakasamband þrátt fyrir að tímapuntkarnir séu tveir þar sem að breytingar á neyslumynstri geta verið nýtilkomnar eða verið tengdar því að þáttakendur séu að reyna að grennast í kjölfar nýtilkominnar þyngdaraukningar. Mikilvægt er að fylgja þessari rannsókn eftir með stærra úrtaki og skoða þriðja tímapunktinn sem nýlega hefur verið tekinn. Auk þess mætti skoða betur aðra áhrifaþætti enda gæti margt annað haft mikil áhrif á fitusöfnun á þessum árum eins og neysla á skyndibitum, minni hreyfing og lítill svefn.

Athugasemdir: 
 • Rannsóknin er hluti af stórri langtímarannsókn sem unnin er út frá verkefninu Heilsuefling og forvarnir í framhaldsskólum (HoFF) og byggir á verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli (HeF).
Samþykkt: 
 • 23.9.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/23004


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Breytingar á holdafari unglinga frá 16-18 og tengsl við neyslu á sykruðum drykkjum .pdf1.21 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna