is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/23005

Titill: 
 • Heilsuhvetjandi kennarar : áhugi kennara á menntun sem styður við heilsueflandi starf
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Lífslíkur fólks hafa aukist í nær öllum löndum Evrópu en það hefur ekki í öllum tilvikum haft í för með sér aukin lífsgæði. Rannsóknir hafa sýnt að ómenntað fólk hreyfir sig minna og fer síður eftir ábendingum um hollt mataræði en fólk sem er meira menntað. Skólinn er kjörinn vettvangur fyrir heilsueflingu á sviði næringar og hreyfingar þar sem hann getur skapað jafnari tækifæri en á öðrum sviðum samfélagsins til heilsu og velferðar. Góður og uppbyggilegur kennari er lykill að velferð barna, ekki síður en umhverfið sem þeim er búið. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna áhuga og þörf á endurmenntun og starfsþjálfun á meðal stétta sem vinna að heilsueflingu á einn eða annan hátt, og þá sérstaklega möguleika kennara sem heilsuhvetjandi afls (e. health agents), það er að segja hvert þeir telja hlutverk sitt vera varðandi það að hvetja til heilsueflandi starfs og umhverfis.
  E-learning for the Health Agents Programme in Europe (eHAP) var samstarfsverkefni fimm landa í Evrópu en þau eru Ísland, Noregur, Danmörk, Belgía og Portúgal. Verkefnið var styrkt af Leonardo sem er starfsmenntahluti menntaáætlunar Evrópusambandsins (nánari upplýsingar um eHap-verkefnið eru í viðauka A). Tilgangur verkefnisins var að kanna þörf og áhuga á endurmenntun og starfsþjálfun með áherslu á heilsu, næringu og hreyfingu. Þátttakendur verkefnisins voru allir í einhvers konar ábyrgðarstöðum sem gerðu þeim kleift að hafa yfirsýn og þekkingu á færni og þörfum þeirra markhópa sem þeir voru málsvarar fyrir en þar var um að ræða leik-, grunn- og framhaldsskólakennara, kokka, starfsfólk stóreldhúsa og heilbrigðisstarfsfólk. Hér eftir verða markhóparnir kallaðir þátttakendur. Til að meta færni og þarfir þátttakenda var beitt svokallaðri Delphi-aðferð en hún byggir á rýnihópaviðtali og nokkrum umferðum af spurningalistum, í eHap verkefninu voru þeir lagðir fyrir tvisvar sinnum, með það að markmiði að ná samhljóða áliti innan sérfræðingahópsins, það er þátttakenda.
  Í niðurstöðum úr rýnihópaviðtali á Íslandi og spurningalista úr seinni umferð kom fram að þekkingu, virðingu og samvinnu milli þeirra stétta sem þátttakendur voru málsvarar fyrir væri ábótavant. Jafnframt kom í ljós að þátttakendur töldu kennara vanta grunnþekkingu í næringarfræði og stuðning við heildræna nálgun á heilsu og heilsueflingu í almennu skólastarfi. Niðurstöður bentu jafnframt til þess að kennarar á Íslandi hafi áhuga á heilsu og heilsueflingu (með áherslu á næringu og hreyfingu) og vilji í auknum mæli sækja sér frekari menntun á því sviði samanborið við önnur lönd.
  Draga má þá ályktun að þörf sé á frekari grunn-, sí- eða endurmenntun til að efla þekkingu, færni og samvinnu kennara annars vegar og á milli kennara og annarra þátttakenda eHap verkefnisins hins vegar. Því er mikilvægt að gefa þeim tækifæri til að læra saman og afla sér meiri upplýsinga um sérþekkingu annarra stétta með sömu markmið og þeir sjálfir. Jafnframt má gera ráð fyrir að meðvitund og áhugi kennara á Íslandi á heilsu og heilsueflingu hafi aukist frá því að eHap-rannsóknin var framkvæmd þar sem heilsutengd málefni skólanna fengu nýlega aukið vægi hér á landi með tilkomu heilsueflandi skóla á flestum skólastigum, heilsueflandi samfélaga sem og grunnstoðinni heilbrigði og velferð í Aðalnámskrá (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013).

Samþykkt: 
 • 24.9.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/23005


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistarverkefni - Hulda Sigurjónsdóttir.pdf1.23 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna