Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/23027
Í þessari rannsókn er sjónum beint að íslenskukennurum sem málfyrir-myndum. Með málfyrirmynd er ekki einungis átt við kennara sem vandar mál sitt, heldur kennara sem notar fjölbreyttar leiðir til að glæða áhuga nemenda á tungumálinu. Því þarf að leita lengra en til málnotkunar kennaranna sjálfra til að varpa ljósi á þá sem málfyrirmyndir. Sett var fram rannsóknarspurningin: Hvernig geta kennsluhættir og viðhorf íslensku-kennara á unglingastigi varpað ljósi á þá sem málfyrirmyndir?
Í fræðilega hluta verkefnisins er fjallað um ýmislegt er við kemur tungumálum í eðli sínu og málnotkun barna, unglinga og kennara. Meðal annars er fjallað um máltöku og málþroska, orðaforða, málbreytingar, áhrif ensku á íslenskt mál og áherslur í aðalnámskrá. Einnig er fjallað um rann-sóknir á áhrifum kennara og kennsluaðferða á orðaforða og málfærni nemenda. Í síðari hluta verkefnisins er fjallað um rannsóknina sjálfa, sem er eigindleg rannsókn sem framkvæmd var í sex grunnskólum. Tekin voru einstaklingsviðtöl við sjö starfandi íslenskukennara á unglingastigi með það að markmiði að varpa ljósi á störf þeirra, mati þeirra á málfærni unglinga og viðhorf kennara gagnvart tungumálinu.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að flestir viðmælendur hafa litlar áhyggjur af málfari unglinga almennt, en finnst minnkandi lestur hafa skilað sér í minni orðaforða og lítilli þekkingu á málsháttum og orðatiltækjum. Þeir leggja mesta áherslu á lestur í kennslu til að sporna við þessum áhrifum. Viðmælendum er annt um tungumálið og finnst mikilvægt að vera góðar fyrirmyndir þrátt fyrir að þeir velji ólíkar leiðir til að efla málvitund og málfærni nemenda sinna. Í umræðukafla er fjallað um niðurstöður í tengslum við fræðilega hluta verksins og settar eru fram umræður um hlutverk íslenskukennara.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokautgafa_Solveig_Bjarnadottir.pdf | 891.68 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |