is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Verkfræði- og náttúruvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Verkfræði- og náttúruvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/23106

Titill: 
 • Íslenskur landbúnaður og velferð búfjár. Viðhorf almennings, birtingarmynd hagsmunaaðila og kauphegðun neytenda
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Í ritgerð þessari er greint frá niðurstöðum rannsóknar á viðhorfum neytenda til íslensks landbúnaðar og velferðar búfjár. Kannað var hvort viðhorfin haldist í hendur við innkaupahegðun.
  Rannsóknaraðferðin er eigindleg og byggir að stofni til á viðtölum við ellefu einstaklinga. Þátttakendur rannsóknarinnar áttu það allir sameiginlegt að vera virkir í heimilishaldi og sjá um innkaup og eldamennsku. Birtingarmynd hagsmunaaðila í landbúnaði var einnig greind út frá kynningarefni þeirra til þess að skoða mætti samhengi þeirrar ímyndar sem þar birtist og ímyndar viðmælenda af íslenskum landbúnaði. Þá var þróun í lögum og reglugerðum á Íslandi er varða velferð búfjár skoðuð, ásamt þróun í aðbúnaði búfjár til þess að hægt væri að meta stöðu dýravelferðar hér á landi um þessar mundir.
  Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að íslenskir neytendur hafi þá ímynd af innlendum landbúnaði að hann sé hreinn og náttúrulegur og að frelsi og velferð búfjár sé almennt mikil, sem er í samræmi við þá ímynd sem hagsmunaaðilar í landbúnaði birta í kynningarefni. Útivist dýra var talinn nauðsynlegur hluti af velferð þeirra en þó kom í ljós að þar höfðu viðmælendur fyrst og fremst í huga hross, nautgripir og sauðfé, en reyndust almennt fákunnandi um aðbúnað svína og alifugla, sem alin eru upp innanhúss og við mikil þrengsli. Viðmælendur töldu víst að aðbúnaður þessara dýra væri betri á Íslandi en erlendis og að hér á landi fyndust engin verksmiðjubú. Þó höfðu viðmælendur áður skilgreint verksmiðjubúskap á þann hátt að það væri að ala dýr allan lífaldurinn inni.
  Viðmælendur voru sammála um að velferð búfjár skipti miklu máli en verð á landbúnaðarvörum reyndist síðan vega þyngra við innkaup. Tilhneigingin var almennt sú að velja það ódýrasta en einnig gátu heilsufarssjónarmið vegið þungt. Viðmælendur lýstu togstreitu sem skapaðist við innkaupin þegar þessi þrjú sjónarmið tókust á: Verð, hollusta og vilji til að búfé nyti velferðar. Þannig varpar rannsóknin ljósi á ástæður þess að verslunarhegðun getur verið á skjön við skoðanir fólks og orðræðu í samfélaginu.
  Lykilorð: Velferð búfjár, íslenskur landbúnaður, neytendur, viðhorf, kauphegðun.

Samþykkt: 
 • 2.10.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/23106


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Anna Berg Samúelsdóttir.pdf1.23 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna