Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/23172
Femínismi er í senn fræðigrein og barátta. Pólitískt markmið femínismans er að vera liður í vitundarvakningu sem er forsenda þróunar í átt að jafnrétti. Slagorðið „hið persónulega er pólitískt“ er kjarni femínisma og að deila reynslu af misrétti er álitin uppspretta mikilvægrar þekkingar. Í femínískri kennslufræði er lögð áhersla á tengsl menntunar og samfélagsumbóta. Á þeim grundvelli fjallar bell hooks (1994) um hina femínísku kennslustofu. Hlutverk hennar er að styrkja sjálfsvitund nemenda og gera þeim kleift að beita sér fyrir jafnrétti. Í femínísku námi eru hin svokölluðu kynjagleraugu sett upp. Að setja upp kynjagleraugun felur í sér að kenningum um valdatengsl kynja og kyngerva er beitt á það viðfangsefni sem er til skoðunar hverju sinni. Hér eru áhrif femínískrar þekkingarsköpunar á meistaranema í kynjafræði við Háskóla Íslands skoðuð. Um er að ræða eigindlega rannsókn sem byggir á viðtölum við tíu kvenkyns núverandi og fyrrverandi nemendur. Upplifun þeirra af námi í kynjafræði við Háskóla Íslands er í anda hinnar femínísku kennslustofu. Niðurstöður benda ennfremur til að femínismi sé ekki aðeins fræðigrein baráttunnar heldur einnig fræðigrein persónulegrar vitundarvakningar sem jafnframt styður við samfélagslega þróun í átt að jafnrétti vegna þeirra áhrifa sem hún hefur á sjálfsvitund nemenda, sýn þeirra á stöðu sína í samfélaginu og þess umbreytandi afls sem vitneskjan skapar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
FELMAN_karenastakristjansdottir_gydamargretpetursdottir.pdf | 436,19 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |