Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/23305
Heilsuskóli Barnaspítala Hringsins er meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga með offitu og foreldra þeirra. Þverfaglegt teymi fagfólks vinnur með þátttakendum að því að breyta hegðun sem stuðlar að óæskilegri þyngdaraukningu, til dæmis matar- og hreyfimynstri. Hér er kannað hvernig áhugahvöt, væntingar og upplifun þátttakenda af meðferð í Heilsuskólanum hefur áhrif á þátttöku, sérstaklega með tilliti til hreyfiþáttar meðferðarinnar.
Þátttakendur í viðtalsrannsókn voru annað foreldri níu barna úr fjórum hópum 8-12 ára barna sem lokið höfðu meðferð í Heilsuskólanum. Þátttakendur í hreyfimælingum voru 32 börn úr þremur þessara sömu hópa sem luku meðferð. Þátttakendur í þolmælingum voru 15 börn úr tveimur þessara hópa sem luku meðferð. Mælingar á virkni fóru fram með hreyfimælum og þrek var mælt með sex-mínútna gönguprófi fyrir og eftir íhlutun. Viðtal var tekið við foreldrana sem sneri að áhugahvöt, væntingum og almennri upplifun af þátttöku í Heilsuskólanum.
Niðurstöður úr hreyfimælum gáfu til kynna óhóflega kyrrsetu og litla hreyfingu af meðal til mikilli ákefð yfir tímabilið sem mælt var. Enginn marktækur munur fannst milli mælinga fyrir og eftir íhlutun, hvorki hreyfimælinga né þolmælinga. Greining á viðtölum leiddi í ljós þrjú þemu sem voru flokkuð undir hreyfingu, þyngd og vigtun, og almenna upplifun af þátttöku. Almenn ánægja var meðal þátttakenda með meðferðina í heild sem og almenn ánægja með hreyfiþátt meðferðarinnar. Að sögn foreldranna upplifðu mörg barnanna félagslega vanlíðan sem þau röktu til þyngdar sinnar. Þátttakendur gerðu sér væntingar um að léttast, eða að börnin þeirra léttust á tímabilinu, en vigtin var kvíðaefni sem hafði áhrif á þátttöku og meðferðarheldni. Lengd meðferðar var einnig umræðuefni.
Kyrrseta er vandamál hjá börnum í offitumeðferð og hreyfing er langt undir ráðlögðum mörkum. Regluleg vigtun hefur neikvæð áhrif á þátttakendur og velta þarf fyrir sér hvernig haga eigi vigtun í framtíðinni. Áhugaleysi varðandi mælingar einkenndi þátttakendur í hreyfi- og þolmælingum og því er mikilvægt að finna lausn á því. Áríðandi er að finna þolpróf sem bæði hvetur þátttakendur áfram og skilar áreiðanlegum niðurstöðum á líkamlegu ásigkomulagi þátttakenda. Áhugi fyrir þátttöku, bæði hjá barni og foreldri, og að þau hafi trú á markmiðum og meðferðinni, eru forsenda þess að árangur náist. Áframhaldandi þróun og rannsóknir eru mikilvægar fyrir hreyfiþátt Heilsuskólans.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Þórður Sævarsson.pdf | 1.17 MB | Opinn | Skoða/Opna |