Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/23311
Markmið þessarar rannsóknar er að kanna bakgrunn og starfsvettvang félagsráðgjafa með íslenskt starfsleyfi og bera niðurstöðurnar saman við eldri rannsóknir. Notast var við megindlega rannsóknaraðferð. Sendur var rafrænn spurningalisti til allra félagsráðgjafa með íslenskt starfsleyfi (N 528) og var svörunin góð, 64%. Niðurstöður rannsóknarinnar samræmast fyrri þekkingu um stöðu kvenna á vinnumarkaði, t.d. það að konur ráðast síður í æðstu stjórnunarstörfin en karlarnir en einnig um hlutfall karla í félagsráðgjöf, en þeir eru um 10% stéttarinnar. Auk þess falla hugmyndir kerfiskenningarinnar um starfsferil að hugmyndum félagsráðgjafar um heildarsýnina, þar sem horfa verði til allra þátta sem geti haft áhrif á einstaklinginn. Niðurstöðurnar sýndu að hinn dæmigerði félagsráðgjafi er 41-45 ára kona sem er gift eða í sambúð og á 2 börn. Hún býr á höfuðborgarsvæðinu og starfar í félagsþjónustu. Hinn dæmigerði félagsráðgjafi hóf nám í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands 21-25 ára gamall og myndi velja aftur það nám í dag, ef hann ætti þess kost, auk þess að hafa áhuga á að mennta sig enn frekar. Dæmigerði félagsráðgjafinn vinnur fullt starf þar sem félagsráðgjafamenntunar er krafist og hóf störf beint að námi loknu. Einnig hefur hann bætt við sig framhaldsmenntun, er ekki í stjórnunarstöðu og hefur ekki áhuga á að fá sérfræðileyfi í félagsráðgjöf. Hinn dæmigerði félagsráðgjafi er nánast eins og í fyrri rannsóknum nema að því leyti að nú hefur hann aukið menntun sína sem tengist breyttum áherslum í náminu og aukinni fagþróun á alþjóðavísu. Áhugavert væri að endurtaka rannsóknina að nokkrum árum liðnum og reglulega eftir það til að sjá hvort, og þá hvernig, breytingar verða á félagsráðgjafastéttinni sem heild með árunum, t.d. varðandi áhuga á sérfræðileyfi í faginu, menntunarstig og kynjahlutföll.
Lykilorð: Félagsráðgjafi, bakgrunnur, starfsvettvangur, kyn, nám
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MA-ritgerð-EJ.pdf | 2.53 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |