is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/23329

Titill: 
  • Lagaumhverfi smálánafyrirtækja með tilliti til vaxtafrelsis
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Í kjölfar fjármálakreppunnar sem hófst árið 2008 hafa sprottið upp hér á landi svokölluð smálánafyrirtæki sem veita einstaklingum, oft í fjárhagserfiðleikum, skyndilausnir við vanda sínum með því að veita þeim peningalán til skamms tíma, svokölluð smálán. Lánastarfsemi slíkra fyrirtækja er frábrugðin hefðbundinni lánastarfsemi, þar sem að lánsupphæðirnar eru almennt töluvert lægri en gengur og gerist og minni kröfur eru gerðar til fjárhagslegrar stöðu lántakenda, ásamt því svo að lánstíminn er yfirleitt styttri en þekkist í annars konar lánaveitingum. Í dag eru starfandi fimm smálánafyrirtæki hér á landi; Kredia ehf., Hraðpeningar ehf., 1909 ehf., Múla og Smálán ehf. Ef umsóknaraðilinn uppfyllir öll þau skilyrði sem að smálánafyrirtækið setur til þess að hann teljist lánshæfur getur hann í kjölfar afgreiðslu á umsókn sinni strax farið að nýta sér þjónustu fyrirtækisins, án mikillar rannsóknarvinnu um raunverulega fjárhagsstöðu lántaka.
    Lántaki þarf þó, sama hvað, að vera megnugur þess að afla sér fljótlega aftur fjármagns og þá hærri upphæðar en þeirrar sem hann fékk upphaflega að láni. Sú staða getur augljóslega valdið mörgum lántökum miklum erfiðleikum þar sem margir hverjir eru ekki lánshæfir hjá öðrum fjármálastofnunum og skulda yfirleitt, töluverðar fjárhæðir, áður en smálánin eru tekin. Þó alls ekki sé tækt að alhæfa að einungis fólk í miklum fjárhagslegum þrengingum nýti sér lánakost smálánafyrirtækjanna virðist þeir einstaklingar vera meginþorri viðskiptavina.
    Hörð gagnrýni hefur einmitt verið sett fram vegna þess að svo virðist sem markhópar smálánafyrirtækjanna séu einna helst einstaklingar í fjárhagslegum erfiðleikum, sem og ungir einstaklingar með lágar tekjur. Þessir hópar lántakenda „njóta góðs af því” að fyrirtækin hafi ekki aðgang að trúnaðartrúnaðarupplýsingum bankanna um fjárhagsstöðu þeirra og geta þannig rýmkað aðgang sinn að lánsfé og skuldbundið sig umfram það sem bankar og aðrar lánastofnanir heimila
    Smálánafyrirtækin eru ólík hefðbundnum bankastofnunum að því leyti, að þau fjármagna sig ekki með innlánum, heldur sjá eigendur fyrirtækjanna um að fjármagna þau. Þetta, ásamt stuttum lánstíma, leiddi meðal annars til þess að starfsemi smálánafyrirtækja var fyrir lagabreytingu neytendalánalaganna nr. 33/2013 ekki eftirlitsskyld líkt og á við um aðrar fjármálastofnanir. Vextirnir á lánunum og lántökukostnaður voru töluvert hærri en á öðrum lánaformum fyrir lagabreytinguna og á þeim útlánum sem höfðu hvað stystan lánstíma var hlutfallslegur vaxta-kostnaður oft himinhár.
    Mikið hefur verið fjallað um starfsemi þessara fyrirtækja í samfélaginu og mikil umræða skapast um lögmæti og siðferðislegt inntak þessara lána, þeirra vaxtakjara og kostnaðar sem þau bjóða sem og þær innheimtuaðgerðir sem tíðkast á slíkum lánum samkvæmt stöðluðum, einhliða skilmálum smálánafyrirtækjanna. Oftast nær hefur umræðan verið neikvæð enda var það lengi vel svo að fyrirtækin störfuðu nánast frjálsum höndum í lagalegu tómarúmi.
    Löggjafarvaldið hefur brugðist við þessari stöðu með því að setja smálánafyrirtækjunum kostnaðar- og vaxtaþak og skapað skýrara lagaumhverfi um starfsemi smálánafyrirtækjanna, en það var gert með áðurnefndum lögum um neytendalán.
    Tilgangur þessarar ritgerðar er að fjalla um setningu og gildissvið neytendalánalaganna og áhrif þeirra á starfsemi smálánafyrirtækja. Í kjölfar þess verður samninga- og vaxtafrelsinu gefin gaumur þar sem í 26. gr. laganna er að finna umdeilt ákvæði þar sem löggjafinn lögfesti fyrirfram ákveðið hámark á vexti og kostnað sem heimilt er að semja um sín á milli. Með því tálmar löggjafinn hinu lögbundna vaxtafrelsi, en vaxtafrelsi er mikilvæg meginregla í íslenskum rétti og er að finna t.d. í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þar sem það er látið falla undir hið nær algilda og rótgróna samningafrelsi, enda eru þær meginreglur mjög samtvinnaðar. Vaxtafrelsið er mikilvægt frelsi samningsaðila á milli til að ákveða vexti af peningalánum og fjármálagjörningum sínum. Í samningafrelsinu felst svo frelsi aðila til að ákveða hvort þeir geri samning, við hvern þeir gera samning og jafnframt frelsi um efni samninga.

Samþykkt: 
  • 15.12.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/23329


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BA ritgerd, lagaumhverfi smalanafyrirtækja.pdf494.22 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
forsida.pdf162.27 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_HelgaRut.pdf368.94 kBLokaðurYfirlýsingPDF