Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/23336
Álitaefnin sem rísa í málum er varða skaðabótaábyrgð eru margvísleg og reynast oft flókin úrlausnar. Þessum málaflokki, og álitaefnunum sem honum tengjast, eru gerð góð skil í riti Viðars Más Matthíassonar, Skaðabótaréttur, en þar segir hann:
Hér skal þess aðeins getið, að þótt grundvallarreglur skaðabótaréttar séu einfaldar, hefur þessi grein lögfræðinnar orðið sífellt yfirgripsmeiri og flóknari. Hefur það leitt til þess að erfitt reynist að hafa yfirsýn yfir reglur skaðabótaréttarins. Á það bæði við um reglur, sem lúta að ákvörðun skaðabótafjárhæðar og hvaðan bæturnar eiga endanlega að koma.
Skaðabótaábyrgð þarf að vera reist á bótagrundvelli og er sakarreglan megingrundvöllur ábyrgðar í íslenskum skaðabótarétti, þ.e. sá aðili sem veldur öðrum manni tjóni á saknæman og ólögmætan hátt ber skaðabótaábyrgð á tjóni þess manns. Réttarsviðið hefur þó verið í mikilli þróun seinustu áratugi og hefur ábyrgð á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar færst í aukana en í þeim bótagrundvelli felst að vinnuveitandi beri ábyrgð á tjóni sem þriðji maður verður fyrir vegna háttsemi starfsmanns vinnuveitandans. Þessar reglur hafa því mikið um það að segja hvaða aðili það er sem kalla má til ábyrgðar á tjóni og þar af leiðandi hvaðan bæturnar eiga endanlega að koma.
Eitt álitaefni sem oft hefur reynt á í tengslum við beitingu þessara reglna er hvort sá sem veldur tjóni á þriðja manni starfi sem starfsmaður annars aðila eða sem sjálfstæður verktaki. Ástæða þess er sú að um samningssamband verktaka og verkkaupa gildir meginreglan að verktaki beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem hann veldur. Því verður aðili sem ræður verktaka til að vinna verk, verkkaupi, ekki sóttur til ábyrgðar vegna tjóns sem rekja má til verktakans. Ágreiningur hefur komið upp um hvort samningssamband vinnuveitanda og starfsmanns sé byggt á grundvelli ráðningarsamnings eða hvort í raun sé um verksamning að ræða. Úrlausn þess álitaefnis getur bersýnilega haft miklar réttarafleiðingar í för með sér. Þegar um algenga, hefðbundna og skriflega samninga er að ræða ríkir að öllu jöfnu lítill vafi um hvort viðkomandi samningur teljist ráðningar- eða verksamningur. Samningar sem þessir geta þó verið óljósir og jafnvel óskriflegir en við slíkar aðstæður getur réttarstöðu manna verið teflt í tvísýnu þegar ágreiningur sá er borinn undir dómstóla.
Í þessari ritgerð verður leitast við að skýra í meginatriðum muninn á verk- og ráðningarsamningum ásamt þeim reglum sem dómstólar hafa stuðst við til aðgreiningar milli þessara samninga. Sérstök áhersla verður lögð á hvort einhver merki séu um breytta nálgun við þetta úrlausnarefni hjá Hæstarétti Íslands.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-meginmál.pdf | 268.82 kB | Opinn | Meginmál | Skoða/Opna | |
Forsíða.pdf | 163.62 kB | Opinn | Forsíða | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_Sigurður.pdf | 334.1 kB | Lokaður | Yfirlýsing |