Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/23424
Um vanefndir á samningum gilda almennar reglur kröfuréttar um vanefndaúrræði en þær eru miðaðar við það sem er hentugast í hverju tilviki. Þær reglur eru þó að meginstefnu til frávíkjanlegar og gilda aðeins ef ekki hefur um annað verið samið. Í íslenskum rétti gildir meginreglan um samningsfrelsið en í henni felst meðal annars frelsi til að ákveða hvaða vanefndaúrræðum skuli beitt ef annar aðilinn vanefnir samninginn. Samningsbundin vanefndaúrræði hafa þann kost að skapa aukinn fyrirsjáanleika í samningssambandinu þar sem skilyrði vanefndaúrræða samkvæmt almennum reglum kröfuréttar eru mörg hver matskennd. Sú hætta er þó ávallt fyrir hendi að samningsaðili með sterkari stöðu við samningsgerðina nýti sér hana til þess að knýja fram samningsákvæði sem eru honum til hagsbóta. Á þetta einkum við þegar aðili takmarkar rétt viðsemjanda síns til vanefndaúrræða eða undanskilur sig ábyrgð á vanefndum. Vegna þessa sætir samningsfrelsið ýmsum takmörkunum sem hafa það að markmiði að sporna gegn misnotkun á samningsfrelsinu.
Í ritgerðinni er fjallað heildstætt um samningsbundin vanefndaúrræði. Greint er frá algengustu samningsákvæðunum og vikið er að þeim réttarreglum sem um þau gilda, hvaða takmörkunum þau sæta og hvernig þau eru túlkuð í dómaframkvæmd. Stuðst er við norrænar heimildir, sérstaklega danskar og norskar, auk þess sem skoðuð er norræn dómaframkvæmd.
Í 2. kafla ritgerðarinnar er stuttlega fjallað um fræðigreinina kröfurétt. Vikið er að helstu réttarheimildum á þessu sviði og hugtakinu krafa. Fjallað er um lok kröfuréttinda og hvað geti talist réttar efndir kröfu. Tæpt er á almennum reglum um vanefndaúrræði í 3. kafla ritgerðarinnar og skilyrði fyrir beitingu þeirra sem gilda nema að annað sé um samið. Í 4. kafla er fjallað um þær reglur samningaréttar sem gilda um samninga um kröfuréttindi svo sem meginreglunum um samningsfrelsið og skuldbindingargildi samninga auk þess sem greint er frá helstu reglum sem gilda um efni og túlkun samninga á sviði kröfuréttar. Einnig eru ógildingarreglur samningaréttar til umfjöllunar. Meginþungi ritgerðarinnar er 5. kafli hennar. Viðfangsefni kaflans eru samningar um vanefndaúrræði og afleiðingar þeirra. Þau samningsákvæði sem helst eru skoðuð eru samningsákvæði um ábyrgðaryfirlýsingar, úrbótaskyldu og samningsákvæði sem undanþiggja eða takmarka ábyrgð annars aðilans. Einnig er farið yfir ýmis samningsákvæði svo sem févíti, samkeppnisbann, almenna fyrirvara um ástand eignar og samningsákvæði sem takmarka ábyrgð á því sem selt er úr þrotabúum og dánarbúum. Að lokum eru niðurstöðu dregnar saman í 6. kafla.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Forsíða.pdf | 36.46 kB | Opinn | Forsíða | Skoða/Opna | |
Samningsbundin vanefndaúrræði.pdf | 842.29 kB | Lokaður til...01.01.2030 | Heildartexti | ||
Yfirlýsing_Margrét.pdf | 417.25 kB | Lokaður | Yfirlýsing |