Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/23620
Markmið þessarar ritgerðar er að varpa ljósi á það tímabil í sögu Alþýðuflokksins þegar vinstri armur flokksins lét til skarar skríða á flokksþinginu 1952 gegn sitjandi formanni og samherjum hans. Reynt hefur verið eftir fremsta megni að endurskapa línulega atburðarás þar sem þróun mála eru höfð í fyrirrúmi, þó verður stöku sinnum brugðið út af beinu brautinni til að skýra betur frá atburðum þar sem það þótti við hæfi. Ritgerðinni hefur verið skipt þannig niður að fyrst verður greint frá hallarbyltingunni 1952 og tildrögum hennar. Greint verður frá viðhorfum hins fallna formanns, Stefáns Jóhanns Stefánssonar, sem greindi ítarlega frá þessu tímabili í æviminningum sínum. Í öðrum kafla verður farið nánar í saumana á ástandinu innan herbúða Alþýðuflokksins eftir að Hannibal Valdimarsson tók við stjórnartaumunum. Eins og gefur að skilja þá kom það í hlut nýrrar flokksstjórnar sem nú tók við búinu að móta nýja stefnu flokksins í innan- og utanríkismálum en þar lenti hún fljótt upp á kant við flokkssystkini sín. Þar að auki var ýmislegt annað í heimilishaldinu sem olli nýju stjórninni vandræðum en þar var fjárhagsvandi Alþýðuflokksins og málgagns þess, Alþýðublaðsins, sem fyrr efst á blaði. Ítök fyrri flokksforystu voru ekki horfin og nýja stjórnin fékk fljótt að finna fyrir því að hún hlaut misgóðar móttökur þar sem að hún drap að dyrum í leit að aðstoð. Þrátt fyrir formannsskipti þá var ekki ljóst hver fór í raun og veru með lyklavöldin. Í þriðja kafla færist leiksviðið til Kópavogshrepps en þar spratt upp ágreiningur í sveitarstjórnarkosningunum 1954 sem átti eftir að taka á sig þverpólitíska mynd. Deila þessi átti eftir að draga dilk á eftir sér og varð fljótt betur þekkt einfaldlega sem „Kópavogsmálið“. Fjórði og jafnframt síðasti kaflinn fjallar um skilnað Hannibals og Alþýðuflokksins. Hinn nýi formaður verður hafður í sviðsljósi og þeim sjónarmiðum og áætlunum sem hann ætlaði Alþýðuflokknum verður útlistað og sýnt fram hvernig þau rákust á við áætlanir ýmissa flokksfélaga.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Átök í Alþýðuflokknum.pdf | 1,29 MB | Open | Heildartexti | View/Open |