Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/23652
Í þessari ritgerð færi ég rök fyrir því að manneskjan þurfi að vera grundvallareining í sálfræðilegri kenningasmíð, því líkt og Peter Hacker og Maxwell Bennett (2003) hafa sýnt er umfjöllun um hið sálræna – eða hugann – ekkert annað en umfjöllun um hátterni eða ástand manneskju. Ástæðan fyrir því að benda þarf á þetta er að víða ríkir misskilningur um eðli hugans. Margir sálfræðingar gera til dæmis ráð fyrir því að hugur sé það sama og heili. Þetta hefur í för með sér að settar eru fram kenningar um hugarstarf án þess að tengja þær við hátterni þar sem gengið er út frá því að þær séu lýsingar á heilastarfi. En heilinn er ekki gæddur sálrænum eiginleikum og því eru þessar kenningar í besta falli nýjar lýsingar á hátterninu sem skýra átti. Stundum er sálrænum hugtökum sleppt og taugalífeðlisfræðin látin koma í stað sálfræðinnar. Auðvitað er ekkert að því að fást við taugalífeðlisfræði en það verður að gæta sín á því að gera það ekki á kostnað sálfræði. Ég tek ýmis dæmi úr þroskasálfræði til að færa rök fyrir þessu sjónarmiði. Fjallað er um skýringar á hugarstarfi ungbarna, skýringar á getu barna til að skipta milli sjónarhorna og skýringar á einhverfu. Allar eru þær gagnrýndar fyrir að gera ekki grein fyrir samspilinu á milli barns og umhverfis því samkvæmt rökfærslu þessarar ritgerðar er slík greining mikilvægasta hlutverk sálfræðinnar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ritgerð_MartinBrussSmedlund.pdf | 781,42 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |