is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/23774

Titill: 
  • Reglur Evrópuréttar um ríkisaðstoð til flugvalla og flugfélaga. Skuldbindingar Íslands sem aðili að Evrópska efnahagssvæðinu.
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Ísland hefur með aðild að EES-samningnum skuldbundið sig til þess að fara eftir reglum hans og þar á meðal reglum um ríkisaðstoð. Þrátt fyrir að meginregla EES-samningsins um ríkisaðstoð, sem fram kemur í 1. mgr. 61 gr. samningsins, kveði á um að veiting ríkisaðstoðar sé ósamrýmanleg framkvæmd samningsins, er ljóst að samningsríki hafa fjölmargar leiðir til þess að hlutast til á markaðnum.
    Í upphafi 10. áratugarins var flugiðnaðurinn í Evrópu markaðsvæddur en fram að því hafði iðnaðurinn einkennst af miklum höftum og ríkisíhlutun, meðal annars með veitingu ríkisaðstoðar á ýmsa vegu. Þjóðtengd flugfélög (e. national flag carriers) og flugvellir í ríkiseigu voru það sem einkenndu markaðinn. Við afnám á viðskiptahöftum á flugfélög var öllum rekstraraðilum á sameiginlega markaðnum heimilt að reka flugfélag innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í kjölfarið urðu til nýjar tegundir af flugfélögum, svokölluð lággjaldaflugfélög, sem veittu þjóðtengdum flugfélögum, sem mörg hver voru háð fjárstuðningi frá hinu opinbera, mikla samkeppni.
    Markmið þessarar ritgerðar er að fjalla um og gera grein fyrir þeim reglum sem gilda um veitingu ríkisaðstoðar til fyrirtækja innan flugiðnaðarins á Evrópska efnahagssvæðinu. Ítarlega verður fjallað um 61. gr. EES-samningsins, bæði með greiningu á 1. mgr. sem fjallar um þau skilyrði sem aðstoð þarf að uppfylla til að geta talist ríkisaðstoð og undanþágureglurnar í 2. mgr og 3. mgr. greinarinnar. Einnig verður gerð grein fyrir helstu gerðum og leiðbeinandi reglum á sviði ríkisaðstoðar sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn og eiga við um veitingu ríkisaðstoðar til flugvalla og flugfélaga.
    Í upphafi ritgerðarinnar er stuttlega fjallað um þýðingu aðild Íslands að EES-samningnum og hvernig hugmyndin um skilvirkan sameiginlegan markað tengist banni við ríkisaðstoð.
    Því næst er fjallað um hugtakið ríkisaðstoð í víðri merkingu og farið yfir núgildandi stefnu í ríkisaðstoðarmálum á sameiginlega markaðnum en unnið er að því að nútímavæða reglur um ríkisaðstoð með því að gera þær skilvirkari og einfaldari. Þetta er m.a. gert með því að færa fleiri tegundir ráðstafana sem fela í sér ríkisaðstoð undir hópundanþágureglugerðir en þær lýsa ákveðnar tegundir ríkisaðstoðar sjálfkrafa samrýmanlegar sameiginlega markaðnum.
    Í fjórða kafla er farið yfir sérstöðu flugsamgangna innan EES-samningsins með tilliti til reglna um ríkisaðstoð miðað við aðrar tegundir samgangna. Þá er farið nánar í sögu flugiðnaðarins í Evrópu og síðar á EES-svæðinu og gerð grein fyrir mikilvægi iðnaðarins á sameiginlega markaðnum. Í lok kaflans er farið yfir þær leiðbeinandi reglur sem gilda nú og áður um veitingu ríkisaðstoðar til flugiðnaðarins.
    Í fimmta kafla er gerð ítarleg grein fyrir þeim skilyrðum sem aðstoðarráðstöfun þarf að uppfylla svo um geti verið að ræða ríkisaðstoð í skilningi 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins. Umfjölluninni er ætlað að útskýra hugtakið ríkisaðstoð á almennan hátt en leitast er við að tengja skilyrðin við samgönguþjónustur og þá helst við flugsamgöngur.
    Í sjötta kafla er fjallað um viðmiðið um rekstraraðila í markaðsumhverfi en samkvæmt því telst ráðstöfun ekki fela í sér ríkisaðstoð ef hægt er að færa sönnur á það að einkafjárfestir á markaði hefði séð sér hag í að leggja í ráðstafanir sem yfirvöld hafa gert. Það er að segja að ef opinber aðili ræðst í fjárfestingar sem líklegt er að almennur einkafjárfestir á markaðnum hefði einnig ráðist í telst fyrirtæki ekki hafa hlotið ótilhlýðilega ívilnun og ráðstöfunin felur því ekki í sér ríkisaðstoð í skilningi 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins.
    Í sjöunda kafla er skoðað hvaða þýðingu það hefur þegar aðstoð er veitt vegna þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu . Gerð er grein fyrir því regluverki sem fara þarf eftir við mat á því hvort það fyrirtæki sem aðstoðina hlýtur veiti þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu.
    Í áttunda kafla er farið yfir undanþágureglurnar í 2. mgr. og 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins og fjallað um það hvenær aðstoð til flugiðnaðarins getur samræmst þeim undanþágum.
    Níundi kafli er tileinkaður c-lið 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins en oftast er byggt á honum við veitingu aðstoðar til flugiðnaðarins. Í kaflanum er gerð grein fyrir þeim sameiginlegu matsreglum sem fara skal eftir við mat á því hvort aðstoð samrýmist c-liðnum. Sérstök áhersla er lögð á túlkun sameiginlegra matsreglna við veitingu upphafsaðstoðar til flugfélaga. Farið verður ítarlega í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA um veitingu aðstoðar til flugfélaga í Norður-Noregi í þeim tilgangi að útskýra beitingu c-liðarins við mat á því hvort aðstoð sem veitt er til flugiðnaðarins samrýmist framkvæmd EES-samningsins.

Samþykkt: 
  • 14.2.2016
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/23774


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Guðný Ragna Ragnarsdóttir MA ritgerð í lögfræði.pdf773.9 kBLokaður til...01.01.2025HeildartextiPDF
GudnyRagnaRagnarsd.pdf309.15 kBLokaðurYfirlýsingPDF